Tæknin nýtt til að skrásetja hverfandi minjar
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 19. jún 2025 16:22 • Uppfært 19. jún 2025 16:23
Gunnarsstofnun á Skriðuklaustri og Náttúruskólinn hafa að undanförnu leitt verkefni um að virkja ungt fólk til að taka þátt í að vakta náttúru- og menningarminjar. Prufuverkefnið var sýndarveruleikaverkefni um Fljótshúsið við Brekku í Fljótsdal, sem minnir á merkan tíma í samgöngusögu Fljótsdalshéraðs.
Náttúruskólinn stendur fyrir ýmsum útivistarnámskeiðum og lagði því til útivistarþekkinguna og mannaflann en Gunnarsstofnun tækniþekkinguna. Á vegum stofnunarinnar hafa verið unnin fleiri verkefni sem miða að því að nota nýja tækni eða hvetja almenning til að skrá þekkingu á landsvæðum og örnefnum.
Að þessu sinni sýndi stofnunin meðal annars hvernig hægt væri að nýta snjallsíma til að skrá staðsetningar, tengja þær myndefni og vinna þrívíddarmyndir af svæðum.
„Þátttaka ungs fólks er lykilatriði í vöktun menningarminja sem eru að hverfa, meðal annars vegna loftslagsbreytinga. Við höfum ýmsa tækni og vitund um breytingarnar er alltaf lykilatriði,“ sagði Skúli Björn Gunnarsson, forstöðumaður Gunnarsstofnunar, við kynningu verkefnisins nýverið.
Ferjuhúsið í Fljótsdal
Prufuverkefni ungmennanna var skrásetning á Ferjuhúsinu sem stendur neðan við Brekku. Um er að ræða gamalt vöruhús, frá því að ferjusiglingar voru á Lagarfljóti með Lagarfljótsorminum frá árunum 1905-1935.
Húsið er að hverfa, einkum eftir tilkomu Kárahnjúkavirkjunar hefur vatnið aukist í fljótinu og það brýtur af bakkanum og þar með húsinu. Landbrotið er að verða komið inn í miðja byggingu en útveggir hússins voru enn heilir um 1990. Húsin voru reyndar tvö, hitt er þekktara enda stendur það enn, steinhúsið neðan við Gistihúsið á Egilsstöðum.
Vörur voru ferjaðar upp í Fljótsdal og geymdar í húsinu, einkum fyrir Jökuldælinga sem þurftu að koma yfir heiðina og voru því ekki komnir sama dag og báturinn kom. Timburbryggja var við húsið en hún og húsið voru rifin þegar siglingarnar lögðust af þegar vegsamgöngur komust á. Ekki langt frá var bátaskýli en Brekka var heimahöfn bátsins.
Fleiri minjar sem vert er að skrá
Auk þess að skrá núverandi minjar tóku ungmennin saman heimildir um Fljótshúsið og þar með siglingasöguna. Í þeim kemur meðal annars fram að á leiðinni frá Egilsstöðum inn að Brekku hafi verið 10 fastir viðkomustaðir, fimm á hvorum bakka fljótsins. Þá hafi fargjaldið fyrir einstakling með bátnum að Brekku verið 1 króna. Báturinn gekk aðeins að sumri til.
„Það er mikið talað um loftslagsbreytingar í dag og hvaða áhrif þær hafa á heiminn. Þetta er bara enn eitt dæmið sem minnir okkur á hversu margvísleg áhrif þær hafa á okkur. Sennilega eru ekki margir að velta fyrir sér minjum þegar talað er um loftslagsbreytingar en loftslagsbreytingar hafa eins og á margt annað áhrif á minjar og þá sérstaklega við sjávarsíðuna. Minjar eru mikilvægar til að gefa okkur innsýn í hvernig lífið var hér áður fyrr og er því ekki síður mikilvægt fyrir okkur að verja þær,“ segir í samantektinni.
Skúli Björn bætti við að gott hefði verið að finna raunverulegt dæmi til að sýna fram á breytingarnar en Fljótshúsið væri alls ekki eina dæmið, vitað væri um fleiri byggingar „hættulega nálægt fljótinu.“
Afraksturinn skoðaður í sýndarveruleika.
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.