Stórlaxaævintýri í Breiðdalsá
Hvert ævintýrið rekur annað í Breiðdalsá þar sem veiðimenn glíma við stórlaxa á hverjum degi núorðið. Þann 6. júlí setti heimamaðurinn Guðlaugur Jónsson í vænan lax á Skammadalsbreiðu á spón og eftir meira en klst viðureign landaði hann stórum hæng rétt við klakkistuna neðarlega á breiðunni og setti fiskinn í hana.
Í gærmorgun kom síðan annar bolti á Skammadalsbreiðu hjá Högna leiðsögumanni, 92 cm og hann sýndi 9.5 kg á viktunum. Virkaði hann samt "lítill" við hliðina á þeim stóra í kistunni.
Á sama tíma í gærmorgun setti Svissneskur veiðimaður, Hauser Daniel, í stóran fisk í Ármótahyl á litla hitch túpu og var takan svakaleg. Þumbaðist laxinn svo um hylinn og færði sig síðan niður í næsta hyl fyrir neðan þar sem tók heila tvo tíma að þreyta hann. Óli leiðsögumaður sá ferlíkið svo rétt fyrir löndun og var hræddur um að koma honum ekki í háfinn, en erfitt er með löndun á þessum stað. Það tókst og við mælingu reyndist hann allavega 1 meter og enn þykkari en fiskurinn sem Óli hafði séð í kistunni 6. júlí af Skammadalsbreiðu sem viktaði 11,7 kg, svo þessi var áætlaður 12,5 kg eða 25 pund!
Veiðimenn hafa sett í fleiri stóra fiska sem ekki hafa náðst á land og kæmi ekki á óvart ef fleiri svona tröll kæmu á land í sumar. Ávallt hefur verið lögð áheyrsla á vel valda stórlaxa í klakkið í ræktunarátaki Breiðdalsár og hefur það án efa skilað sér eins og þessi veiði ber með sér.
Mynd: Hauser Daniel með sinn stærsta lax á ævinni í gærmorgun, áætlaðan
12,5 kg eða 25 pund.