Skip to main content

Stór nöfn skemmta gestum á Neistafluginu næstu dægrin

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 30. júl 2025 11:45Uppfært 30. júl 2025 11:47

Bæjarhátíð Norðfirðinga, Neistaflug, hefst óformlega í dag og eru næstu dagar pakkfullir af uppákomum og afþreyingu fyrir unga sem aldna. Æði margir landsþekktir listamenn munu líka skemmta heimamönnum og gestum sem best þeir geta langt fram á aðfararnótt mánudagsins.

Alls eru tæplega 30 skipulögð skemmtiatriði frá því síðdegis í dag og fram á lokakvöldið á sunnudagskvöld. Þó húllumhæið hefjist með viðburðum strax í dag og samhliða því sala á aðgangsarmböndum og varningi ýmis konar er formleg setning hátíðarinnar ekki fyrr á föstudagskvöldið á aðal hátíðarsvæðinu.

Veðurspáin hliðholl

María Bóel Guðmundsdóttir, forsprakki og einn skipuleggjenda, segist sjaldan hafa verið bjartsýnni fyrir Neistaflug en nú sem helgast af tvennu að hennar sögn:

„Við erum með mjög flotta og viðamikla dagskrá og topp listamenn hjálpa okkur að halda uppi stuðinu næstu dagana. Hin ástæðan er veðurspáin sem hefur batnað og batnað því nær sem að hátíðinni dregur og nú sé ég ekki betur en við verðum líklega með allra besta veðrið í landinu næstu dagana. Það hjálpar alltaf mikið þegar koma skal stuði í fólkið að hafa gott veður.“

Aðspurð um hvað hún sé sjálf hvað spenntust fyrir segir María það vera hinir mörgu flottu listamenn sem skemmta munu næstu dægrin en ekki síður nýir viðburðir sem ekki hafa verið áður í boði.

„Annars vegar er það svona rafhjólaferð sem er í boði fyrir bæði vana og óvana og svo verður á minnast á freyðivínshlaupið líka. Það snýst um að fólk klæðir sig í kjól, grípur með sér flösku af áfengu eða óáfengu og bókstaflega hleypur sig í sig stuð. Það verður afar gaman að fylgjast með því. Heilt yfir er ég mjög bjartsýn á að allir muni njóta sín hér fram á mánudaginn kemur.“

Stór nöfn

Sem endranær, þó gnótt sé af skemmtilegri afþreyingu alla daga Neistaflugsins er það gjarnan tónlistarfólkið sem trekkir hvað flesta. Þar hefur hátíðarnefndin ekki slegið slöku við því þeir tónlistarmenn sem fram koma eru allir meira og minna landsþekktir. Stebbi og Eyfi hefja leikinn annað kvöld í Egilsbúð og sjálfur Herra Hnetusmjör mun skemmta ásamt Færibandinu við setningu mótsins á föstudagskvöld og á dansleik í kjölfarið. Það svo Katrín Halldóra sem hitar upp aðalkvöldið á sunnudaginn kemur fyrir stórtónleika Neistaflugs að þessu sinni en þar stíga á stokk Eurovision-strákarnir í VÆB, Mugison tekur prógramm með hljómsveit sinni svo ekki sé minnsta á heimamennina í SúEllen sem taka sín vinsælustu lög. Það svo Einar Ágúst sjálfur sem setur endapunktinn á hátíðinni í Beituskúrnum klukkan 23 á sunnudagskvöldið.

Dagskrá Neistaflugs má sjá hér í heild sinni en helgararmband, sem veitir aðgang að öllum stóru viðburðunum fæst á 12.600 krónur hjá hátíðarnefnd og verður einnig selt á vettvangi næstu dagana.