„Stoltastur af að sjá Múlaþing verða að veruleika“
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 20. jún 2025 19:01 • Uppfært 20. jún 2025 19:02
Björn Ingimarsson lét af störfum sem sveitarstjóri Múlaþings í mars síðastliðnum eftir tæp fjórtán ár á Austurlandi. Á þeim tíma stýrði hann Fljótsdalshéraði í gegnum efnahagslegar þrengingar, leiddi sameiningarferli fjögurra sveitarfélaga og þurfti að takast á við náttúruhamfarir.
Björn ólst fyrst upp á Raufarhöfn en flutti svo á Langanes þar sem faðir hans var prestur, og síðar til Víkur í Mýrdal. Björn útskrifaðist frá Menntaskólanum á Akureyri áður en hann hélt til Gautaborgar í Svíþjóð í hagfræðinám. Hann var liðtækur knattspyrnumaður og spilaði meðal annars með Völsungi á Húsavík.
Björn spilaði sem markvörður en er lágvaxnari en margir í þeirri stöðu. „Ég hafði aldrei séð þá og þeir ekki mig þegar ég kom norður með flugi. Þar voru tveir menn sem horfðu stíft upp í flugvélina. Flestir aðrir voru farnir og ég spurði hvort þeir væru að bíða eftir mér. Þeir héldu ekki. En það reyndist vera ég. Þeir trúðu ekki að markvörðurinn væri þetta lítill," segir Björn um það þegar hann fór norður.
Eftir nám starfaði Björn hjá Sambandi íslenskra samvinnufélaga (SÍS) sem hagfræðingur og síðar framkvæmdastjóri fjármálasviðs. Hann varð forstjóri Miklagarðs 1991 fram að gjaldþroti fyrirtækisins árið 1993, sem hafði mikil áhrif á starfsferilinn.
„Orðspor mitt beið hnekki og fyrst á eftir vildi enginn ráða mig," segir Björn. Hann stofnaði eigið ráðgjafafyrirtæki og vann að endurskipulagningu rekstrar víða um land, jafnvel í Mexíkó þar sem hann starfaði í tvö ár sem varð minnisstæður tími fyrir margra hluta sakir.
Sveitarstjórnarferill hefst á Þórshöfn
Árið 1999 kom Björn til Þórshafnar sem ráðgjafi fyrir Hraðfrystistöð Þórshafnar, en árið 2001 var honum boðið að taka við sem sveitarstjóri fram að kosningum. Hann tók við með þeim skilyrðum að vera sveitarstjóri allrar sveitarstjórnar, ekki bara meirihlutans.
Í sveitarstjórnarkosningunum 2002 var þar kosið í óbundinni kosningu. Björn telur að það geti hentað betur í litlum samfélögum frekar en listakosning. „Mitt mat er að fólk sem býður sig fram í slíkum sveitarfélögum eigi að gera það til að starfa fyrir samfélagið, ekki eftir stefnu hins eða þessa landsmálaflokks," segir hann.
Til Fljótsdalshéraðs eftir fjármálahrun
Eftir níu ár sem sveitarstjóri Þórshafnar flutti Björn til Akureyrar og reyndi fyrir sér í landsmálapólitíkinni, en árið 2010 tók hann við starfi sveitarstjóra Fljótsdalshéraðs. Hann segist ekki hafa vitað hversu erfið fjárhagsstaða sveitarfélagsins var fyrr en hann las nýjasta ársreikninginn, skömmu áður en hann fór í starfsviðtalið.
Fyrstu árin var sveitarfélagið í gæslu Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga. „Eitt af því sem við fjármálastjórinn gerðum var að þegar við vorum komnir með áætlun um aðgerðir bárum við þær undir nefndina. Þar fengu menn loks nóg og sögðust hringja í okkur ef þess þyrfti," segir Björn.
Í hagræðingaraðgerðum var aðallega horft til skólamála. Mötuneyti leik- og grunnskólanna á Egilsstöðum og í Fellabæ voru sameinuð, og árið 2012 voru leikskólarnir tveir á Egilsstöðum sameinaðir undir einum stjórnanda. „Það var mjög heitt mál og að ákveðnu leyti skiljanlegt en ég held að í dag vildum við ekkert snúa til baka," segir Björn.
Samfélagið á að eiga sína innviði
Björn telur mikilvægt að samfélögin eigi sjálf sína grunninnviði. Þegar rætt var um að fá einkafjárfesta inn í HEF-veitur var hann mótfallinn því. „Samfélagið á að eiga þetta og við verðum að passa upp á að láta þetta ekki frá okkur. Hættan er að aðrir aðilar hækki hlutafé þannig að eign sveitarfélagsins verði að engu.“
Í umræðu um fjármál sveitarfélaga gagnrýnir Björn þau sveitarfélög sem ekki fullnýta tekjustofna sína en fá samt fullt framlag úr Jöfnunarsjóði. „Mér finnst það óverjandi að þessi sveitarfélög fái fulla meðgjöf frá ríkinu og skerði þar með framlög til annarra sveitarfélaga sem eru í vandræðum, ekki vegna þess að þau eru illa rekin heldur því aðstæður eru aðrar."
Múlaþing verður til
Múlaþing varð formlega til haustið 2020 eftir íbúakosningar árið áður. Björn nefnir sameininguna sem það verkefni sem hann sé stoltastur af að hafa unnið að. „Ég hef komið að mörgum góðum verkefnum en er stoltastur af að hafa séð Múlaþing verða að veruleika."
Þótt samgöngubætur eins og Fjarðarheiðargöng hafi ekki enn orðið að veruleika telur Björn sveitarfélögin sterkari saman en sitt í hvoru lagi. „Þetta eru göng sem til lengri tíma skila verulegum verðmætum. Til að Austurland virki sem eitt atvinnusvæði þarf fólk að geta komist auðveldlega á milli staða."
Aurskriður á Seyðisfirði
Stuttu eftir að Múlaþing varð til urðu miklar aurskriður á Seyðisfirði. „Aurskriðurnar gerbreyttu stöðunni, það má segja að fyrsta árið á eftir hafi megin áhersla verið lögð á að koma samfélaginu á Seyðisfirði í lag.“
Björn segir það hafa verið bót í máli að sameiningin var komin á þannig að starfsfólk annars staðar gat hlaupið undir bagga. „Ég var ánægðastur með hvað viðbrögð starfsfólksins á hinum svæðunum voru jákvæð. Ég man að á jóladag 2020 fór ég niður á Seyðisfjörð að hitta fólk í Herðubreið. Ég hringdi í tvo starfsmenn af skrifstofunni hér á Egilsstöðum og spurði hvort þeir vildu koma með mér. Báðir sögðu strax já, sem er ekkert sjálfsagt á þeim degi."
Heimastjórnir og samtal við íbúa
Við tilurð Múlaþings var í fyrsta sinn farin hérlendis sú leið að koma á fót svokölluðum heimastjórnum. Þær fengu meðal annars skipulagsvald. Björn segir það hafa verið meðvitaða ákvörðun til að veita þeim raunveruleg völd.
„Það hafa ekki allir sömu sýn í sveitarfélaginu en grunntónninn er sameiginlegur. Fulltrúar sveitarstjórnar í heimastjórnum líta á málin í víðara samhengi á meðan heimastjórnin er málsvari íbúanna á staðnum," segir Björn og bætir við: „Ég er á því að það hafi verið hárrétt ákvörðun að stofna til heimastjórnanna."
Mikilvægi samtalsins við íbúana er Birni hugleikið. Hann talar um bæjarstjórabekkinn á jólamarkaðinum á Egilsstöðum og íbúafundi í sveitum Fljótsdalshéraðs og einstökum kjörnum. „Samtalið er uppbyggilegt, það er hægt að leiðrétta misskilning eða taka til meðferðar ábendingar. Við tökum allt saman og leggjum áherslu á að svara þeim sem koma með ábendingar eða spurningar."
Framtíð Austurlands
Múlaþing er 11. fjölmennasta sveitarfélag landsins með rúmlega 5.200 íbúa og ásamt Fjarðabyggð myndar það uppistöðuna í Austurlandi. Björn segir sameiningu Austurlands alls mögulega, sérstaklega þegar búið verði að tengja Mið-Austurland saman með göngum.
Björn telur að stærsta verkefni Múlaþings nú sé að byggja upp atvinnulíf á Seyðisfirði eftir lokun frystihúss Síldarvinnslunnar. „Almennt þarf að treysta atvinnulíf á öllum stöðum og að það sé ekki háð einni atvinnugrein þannig að megnið af störfunum í kjarnanum geti horfið á einu bretti."
Frí og næstu skref
Björn lýsir þakklæti fyrir tímann á Austurlandi: „Mér finnst stórkostlegt að hafa fengið að starfa hér og við erum þakklát fyrir að hafa flutt hingað. Það er bæði náttúran og andrúmsloftið í samfélaginu."
Hann segist vera að aðlagast breyttu umhverfi, fara síðar á fætur á morgnana og sinna enn völdum verkefnum fyrir Múlaþing. „Ég ætla ekki að setjast í helgan stein en ég ætla að taka mér frí í sumar. Síðan ætla ég að dusta rykið af ráðgjafanum í haust."
Björn hefur alltaf litið á sig sem starfsmann íbúanna, ekki eingöngu kjörinna fulltrúa. „Það er mikilvægt að nálgast þetta þannig,“ segir hann að lokum.
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.