Skip to main content

Sterk austfirsk áhrif í sveitinni sem vann símakosningu Músiktilrauna

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 07. apr 2025 10:46Uppfært 07. apr 2025 11:23

Það reyndist hljómsveitin Rown sem fékk flest atkvæði landsmanna í símakosningu Músiktilrauna 2025 sem lauk í gærkvöldi. Hluti liðsmanna sveitarinnar kemur úr Breiðdal og Borgarfirði eystra.

Lokakvöld þessarar vinsælu keppni fór fram í gær en fyrir utan að sérstök dómnefnd velur þær hljómsveitir sem lenda í þremur efstu sætunum fá landsmenn allir einnig að leggja sín lóð á vogarskálarnar í sérstakri símakosningu um besta bandið.

Það reyndist vera Rown, borið fram Rán, en það eru sexmenningar sem stunda nám að Laugum og á Akureyri og hófu fyrst að prófa sig áfram saman í hljómsveit í janúar síðastliðnum. Tveir þeirra, gítarleikarinn Einar Örn Valdimarsson og söngkonan Ríkey Perla Arnardóttir eru Breiðdælingar auk þess sem hljómborðsleikarinn Jónatan Smári Guðmundsson rekur ættir til Borgarfjarðar eystra.

„Við erum ekkert lítið stolt af þessari kosningu,“ segir Ríkey í samtali við Austurfrétt en hún segir hljómsveitina hafa nánast komið saman til þess fyrst og fremst að taka þátt í Músiktilraunum að þessu sinni. Allir keppendur Músiktilrauna þurfa að flytja tvö lög í undankeppninni og mega bæta við einu lagi til í úrslitunum sjálfum.

Austan- og norðanáttir

„Við erum öll í námi að Laugum fyrir utan einn sem er í námi á Akureyri en öll erum við annaðhvort að austan eins og ég og Einar eða að norðan eins og hinir. Við byrjuðum bara að prófa okkur áfram í janúar með það að markmiði að taka þátt í keppninni núna og frábært alveg að fá svona góðan stuðning frá fólkinu í símakosningunni.“

Sjálf hefur Ríkey haft gaman að því að syngja frá barnsaldri þó aldrei hafi hún beinlínis stigið áður á stokk sem söngkona hljómsveitar.

„Það var alveg stressi fyrir að fara hjá mér sérstaklega en reyndar hjá strákunum líka. En sú góða tilfinning að vera að taka þátt í þessu sem við höfum æft okkur fyrir núna í nokkra mánuði kæfði það stress fljótlega hjá okkur.“

Aðspurð segir Ríkey þetta frábæra hvatningu til þeirra að halda áfram að búa til tónlist og það sé hugmyndin hjá öllum í hópnum. Hún útilokar ekki að einn góðan veðurdag muni Rown stíga á svið einhvers staðar á Austurlandi í sumar.

Sumir vilja meina að yfirgnæfandi símakosning almennings sé merkilegri verðlaun en álit fáeinna sérfræðinga á hver stóð sig best. Hér er Ríkey ásamt félögum sínum á sviði í keppninni. Mynd Músiktilraunir