Stemmningspartí meðan Tour de Ormurinn keppnin fer fram á laugardag
Snemma á laugardaginn hefst hin sífellt vinsælli austfirska hjólreiðakeppni Tour de Ormurinn og aftur ætla eigendur verslunarinnar Vasks að hita vel upp fyrir bæði keppendur og áhugasama aðra. Þar bæði með skemmtun og uppákomum við upphaf keppninnar en ekki ekki síður taka vel móti keppendum í lokin með bravúr.
Þrettán ár eru síðan keppnin var fyrsta haldin en þó velja megi um vegalengdir í dag snérist keppnin í upphafi um að klára svokallaðan styttri hring umhverfis Lagarfjótið en sú leið er 68 kílómetrar að lengd. Þeir sem treysta sér í meira geta skráð sig í 103 kílómetra langa vegalengd þar sem hjólað er inn og út Fljótsdal í viðbót við hinn hefðbundna hring. Sem síðustu ár er einnig hægt að keppa í 26 kílómetra vegalengd frá Hallormsstað inn á Egilsstaði.
Veðurspáin geggjuð
Að sögn Gunnars Gunnarssonar, framkvæmdastjóra Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands (ÚÍA), er útlitið sérdeilis gott keppnisdaginn ef marka megi veðurspár en spáin fyrir laugardaginn þegar þetta er skrifað er allt að 26 stiga hiti og sól.
„Á þessu stigi er fjöldi keppenda svona á svipuðu róli og verið hefur síðustu árin en sem fyrr er að koma töluverður fjöldi fólks annars staðar að og margir sem eru farnir að koma aftur og aftur enda einstök keppnisleið við Fljótið og mikill sjarmi yfir keppninni fyrir marga. Eins og í fyrra eru eigendur Vasks að taka þátt í þessu með okkur auk annarra styrktaraðila og það er þar sem keppnin í lengri vegalengdunum bæði hefst og lýkur.“
Keppnin hefst klukkan 9 á laugardagsmorgunn í lengri leiðunum en upphafs- og endamarkið er staðsett skammt frá verslun Vasks við Sólvang.
„Sem fyrr er bæði lögregla og sjúkralið að fylgjast vel með öllu svo öryggi allra sé tryggt. Það þarf að loka lítils háttar kafla meðan keppnin stendur en það ætti ekki að koma að sök fyrir vegfarendur. Ég hvet alla til að koma í Vask um morguninn og taka þátt í smá gleði og hvetja keppendur til dáða. Þar verður tónlist og veitingar og Hjólavinir með sýningu þannig að allir ættu að geta haft gaman að.“
Reynslan hefur sýnt undanfarin ár að fljótustu keppendurnir á 103 kílómetra leiðinni eru gjarnan að koma í mark innan fjögurra stunda frá startinu meðan keppendur í 68 kílómetrunum eru gjarnan rétt rúmlega klukkstund að klára. Það verður því stuð á planinu við Vask í minnst fjórar stundir á laugardaginn kemur.