Verktakafyrirtækið Ístak slapp við aðgerðir að hálfu
Heilbrigðiseftirlits Austurlands vegna umgengni á svæði fyrirtækisins
við Hraunaveitu.Ístak tók við vinnu á svæðinu inni á Fljótsdalsheiði eftir
gjaldþrot Arnarfells. Í lok ágúst var fyrirtækinu veittur viku frestur
til að koma í veg fyrir bráðamengun og tveggja vikna frestur til að
bæta mengunarvarnir og koma starfsleyfismálum í lag. Í bókun stjórnar
HAUST segir að erfitt hafi verið að fá upphreinsun á svæðum þar sem
margir verktakar hafi komið að og auk þess hafi þurft að gera
alvarlegar athugasemdir við umgengni og mengunarvarnir á svæðum sem
Ístak hóf vinnu á. Heilbrigðisfulltrúi fór síðan í ferð um svæðið og
staðfesti að búið væri að koma í veg fyrir áframhaldandi mengun,
geymsla varasamra efna væri mun betri og gagnger tiltekt hefði farið
fram á svæðum. Enn væri mikið eftir en ekki ástæða til að beita
þvingunarúrræðum.
Heilbrigðisnefnd fól starfsmönnum að ganga stíft eftir að umgengni og
meðferð spilliefna og úrgangs verði framvegis í samræmi við lög og
reglur.
Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.