„Stærra en Menningarnótt í Reykjavík fyrir íbúa Stöðvarfjarðar“

„Ég veit að brottfluttir ætla að nýta sér þessa helgi til að koma heim en rétt er að árétta það að hátíðin er alls ekki aðeins hugsuð fyrir heimafólk og brottflutta Stöðfirðinga, heldur bara fyrir alla sem vilja renna við með fjölskylduna og gera sér glaðan dag,“ segir Haukur Árni Björgvinsson, einn aðstandandi bæjarhátíðarinnar Støð í Stöð verður haldin á Stöðvarfirði um helgina.



Bæjarhátíðin Støð í Stöð var fyrst haldin árið 1996, á 100 ára verslunarafmæli Stöðvarfjarðar, næst árið 2006 á 100 ára afmæli Stöðvarfjarðarhrepps og síðast árið 2016. Um helgina verður einnig 90 ára afmæli Ungmennafélagsins Súlunnar fagnað.

„Ekki rukkað inn á neitt nema stórdansleikinn“
Haukur Árni segir dagskrána veglega og eitthvað verði fyrir alla. „Þetta er frábær dagskrá, þó ég segi sjálfur frá. Hún hefst strax á morgun, fimmtudag, en hátíðin sjálf verður svo sett á föstudagskvöldið. Sem fyrr en ekki rukkað inn á neitt nema stórdansleikinn með Stuðlabandinu sem verður í íþróttahúsinu á laugardagskvöldið. Auk þess stendur Súlan bæði fyrir afmælishlaupi og fótboltamóti.“

Hljóðneminn opinn alla helgina
Haukur Árni segir að skipuleggjendur hátíðarinnar hafi ákveðið að láta reyna á nýtt fyrirkomulag í ár. „Við verðum með „hljóðnemann opinn“ alla helgina, þannig að ef þú vilt láta ljós þitt skína, hvort sem það er í söng, ljóðalestri eða einhverju öðru, þá er bara að hafa samband við hljóðmann og sviðið er þitt. Við erum spennt að prófa þetta og vonumst eftir að sjá fjölda mannst brjótast út úr skelinni og troða upp.“

Spennt að sjá bæinn lifna við
Aðspurður hvaða máli slík hátíð skipti samfélag eins og Stöðvarfjörð segir Haukur Árni: „Svona helgi skiptir gríðarlegu máli, sérstaklega fyrir minni samfélög eins og Stöðvarfjörð. Þetta verður ein allsherjar veisla fyrir alla þar sem fólk kemur og skemmtir sér saman. Þetta er stór viðburður í félagslífinu á staðnum, líklega stærri en Menningarnótt í Reykjavík fyrir íbúa Stöðvarfjarðar, að því leyti að þar er eitthvað um að vera allar helgar en hér sárasjaldan. Við sem að þessu stöndum erum í það minnsta orðin mjög spennt að sjá bæinn lifna við.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.