Skip to main content

Stækkun þéttbýlis og verndarsvæða í drögum að nýju aðalskipulagi Múlaþings

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 26. jún 2025 17:06Uppfært 26. jún 2025 17:08

Vinna stendur yfir við fyrsta aðalskipulagið sem gert er í heild fyrir sveitarfélagið Múlaþing sem varð til við sameiningu árið 2020. Það á að gilda til ársins 2045. Þar eru lagðar til ýmsar breytingar sem hafa áhrif á framtíðarnýtingu lands og þróun byggðar.

Þéttbýli stækkuð og miðbæir skilgreindir


Hin nýja framtíðarsýn Múlaþings felur í sér umtalsverðar breytingar á þéttbýlissvæðum. Íbúabyggðin á Borgarfirði er stækkuð, núverandi byggð gerð samfelldari og sérstakt svæði ætlað undir minni íbúðarhús. Fellabær stækkar til norðurs og íbúðabyggð á Eiðum verður aukin lítillega.

Miðsvæði Seyðisfjarðar verður stækkað og í fyrsta sinn verða miðsvæði Fellabæjar og Borgarfjarðar nákvæmlega skilgreind, sem gefur byggðunum skýrari miðbæ. Þetta er liður í þeirri stefnu að gera búsetu í sveitarfélaginu enn eftirsóknarverðari.

Verndarsvæðum fækkað en æðarvarp friðlýst


Svæðum undir hverfisvernd fækkar þar sem sum þeirra njóta nú þegar annarrar verndar samkvæmt lögum. Friðlýst æðarvarp bætist þó við, sem er nýjung í skipulaginu. Frístundasvæðum verður einnig fækkað, sérstaklega þar sem engin uppbygging er hafin.

Ný þjónustu- og afþreyingarsvæði


Skipulagið skilgreinir ný verslunar- og þjónustusvæði að Eiðum og við þjóðveginn við Djúpavog. Ný íþróttasvæði koma inn, hestaíþróttasvæði á Djúpavogi og fjölnota íþróttasvæði á Seyðisfirði. Í samræmi við áfangastaðaáætlun Austurlands bætast við fjölmörg afþreyingar- og ferðamannasvæði, þar á meðal framtíðartjaldsvæði á Seyðisfirði og útsýnisstaðir á fjölmörgum náttúruperlum.

Nákvæm flokkun landbúnaðarlands


Samhliða aðalskipulagsvinnunni er unnið að tveimur mikilvægum verkefnum. Annars vegar nákvæmri skráningu vega og slóða utan byggða, sem miðar að því að skýra hvaða vegir eru opnir umferð með eða án takmarkana. Hins vegar er unnið að flokkun landbúnaðarlands í fjóra flokka: mjög gott, gott, sæmilegt og lélegt ræktunarland.

„Hugmyndin þar að baki er sú að land vel fallið til ræktunar sé dýrmæt auðlind ekki síður en aðrar gjafir náttúrunnar. Gott land þurfi því að vernda sérstaklega með tilliti til síaukinnar samkeppni um jarðir landsins," útskýrði fulltrúi sveitarfélagsins á einum þeirra íbúafunda þar sem skipulagið var kynnt.

Flokkunin getur haft umtalsverð áhrif á framtíðarnýtingu lands, þar sem landeigendur jarða sem flokkast með mjög gott eða gott ræktunarland munu búa við takmarkanir á nýtingu þess lands til annarra nota en akuryrkju.

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.