„Staðfesting á að það skiptir máli að hafa hlýlegt og fallegt kringum sig“
Fyrr í vikunni tilkynnti Fjarðabyggð um þá tvo aðila sem hlotið hafa umhverfisverðlaun sveitarfélagsins þetta árið. Það er Hótel Breiðdalsvík fyrir snyrtilegustu lóð fyrirtækis og lóð Skólabrekku 2 á Fáskrúðsfirði fyrir þá snyrtilegustu í eigu einkaaðila.
Mýmargar rannsóknir gegnum tíðina hafa sýnt mikilvægi þess að hafa eins fallegt og snyrtilegt kringum sig og kostur er. Bæði hefur hreint og fallegt umhverfi jákvæð áhrif á andlega heilsu íbúa en getur jafnframt skipt nokkrum sköpum þegar aðkomufólk íhugar flutninga í nýjan bæjarkjarna.
Kom einmitt fram í máli Þuríðar Lilly Sigurðardóttur, formanns skipulags- og framkvæmdanefndar Fjarðabyggðar, þegar viðurkenningarnar voru veittar að umhverfi, snyrtimennska og ásýnd skiptu alla máli. Með sameiginlegu átaki mætti gera alla bæjarkjarna fallegri og vistlegri en alls bárust nefndinni átta tilnefningar um snyrtilegar lóðir frá íbúum sem sérstök nefnd fór svo yfir.
Kom skemmtilega á óvart
Það reyndust hjónin Elísa Guðjónsdóttir og Stefán Þór Jónsson að Skólabrekku 2 á Fáskrúðsfirði sem þóttu eiga snyrtilegustu lóð einkaaðila þetta árið og tóku þau glöð á móti viðurkenningu vegna þess úr höndum Þuríðar og Arons Leví Beck stjórnanda umhverfismála.
„Við áttum ekki von á að fá umhverfisviðurkenningu og það kom okkur skemmtilega á óvart – en það er yndislegt að sjá að vinnan okkar er að skila einhverju. Í Fjarðabygggð er mikill fjöldi einstaklinga og fyrirtækja sem hugsa vel um umhverfi sitt og óskum við þess að þau megi njóta svona viðurkenninga í framtíðinni. Gerum Fjarðarbyggð að fyrirmynd.“
Umhyggja fyrir umhverfinu byrjar heima
Viðurkenningin fyrir allra snyrtilegasta umhverfi fyrirtækis í Fjarðabyggð 2025 kom í hlut eigenda Hótels Breiðdalsvíkur en hótel og gististaðir eiga sérstaklega mikið undir að umhverfi þeirra sé ávallt hreint og fallegt til að höfða enn frekar til ferðafólks.
„Við trúum því að umhyggja fyrir umhverfinu byrji heima með snyrtilegu og vel hirtu umhverfi. Þessi viðurkenning er staðfesting á að það skiptir máli að hafa hlýlegt og fallegt í kringum sig,“ sagði Friðrik Árnason hótelstjóri af þessu tilefni.