Spenntir Vopnfirðingar á leið á HM í First LEGO
Það er hæfileg blanda af tilhlökkun og taugatitringi meðal vopnfirska liðsins DODICI nú þegar skammt er í brottför á heimsmeistaramótið í First LEGO í Houston í Bandaríkjunum að sögn annars fararstjórans.
Keppendurnir auk tveggja kennara sinna halda utan nú um helgina í töluvert langt flug alla leið til Houston í Texas þar sem tugþúsundir koma saman víða að úr heiminum til að hvetja fjöldann allan af liðum sem etja kappi í þessari vinsælu tækni- og vísindakeppni.
Ungmennin í DODICI unnu sér inn þátttökurétt á heimsmeistaramótinu með sigri í keppninni hér heima sem fram fór í nóvember síðastliðnum og lesa má um hér. Hafa ungmennin undanfarna mánuði óskað eftir styrkjum til fararinnar vestur um haf og gekk það að mestu að óskum.
Að sögn Sólrúnar Daggar Baldursdóttur, umsjónarkennara og eins fararstjóra liðsins, eru taugarnar vissulega aðeins orðnar trekktar nú þegar svo skammt er í brottför en það ríki jafnframt mikil tilhlökkun að taka þátt í slíku ævintýri.
Keppnin ytra hefst svo formlega þann 16. apríl og stendur fram til laugardagsins 19. apríl. Hluti keppninnar verður sýndur í streymi en allar upplýsingar um það má finna á heimasíðu keppninnar hér.
Hluti keppnisliðsins frá Vopnafjarðarskóla að æfingum en árangur nemenda úr skólanum í þessari keppni hefur verið framúrskarandi í mörg undanfarin ár. Mynd Aðsend