Spennandi að fá að vinna með tónskáldinu að útfærslu verksins
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 04. apr 2025 13:35 • Uppfært 04. apr 2025 13:35
Sinfóníuhljómsveit Austurlands frumflytur á sunnudaginn verkið Svefnhjól, draumhús, spegilkompa eftir austfirska tónskáldið Ingibjörgu Ýr Skarphéðinsdóttur. Formaður sveitarinnar segir sérlega ánægjulegt að fá að taka þátt í að frumflytja ný verk.
Þetta er í þriðja sinn sem sveitin frumflytur tónverk eftir tónskáld frá Austurlandi en áður hafa verið flutt verk eftir Þórunni Grétu Sigurðardóttur og Charles Ross. Ingibjörg Ýr er uppalinn í Fellabæ og hefur undanfarin ár getið sér góðs orðs í íslenskri tónlist, meðal annars fengið tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna.
Verkið á sér fleiri austfirskar tengingar því það er innblásið af skáldsögunni Svefnhjólið eftir Gyrði Elíasson frá Borgarfirði. Henni er lýst sem eins konar draugasögu. Bókin segir frá ungum manni sem flytur í gamalt sumarhús í litlu þorpi en eftir komu hans fara að gerast undarlegir hlutir hjá honum í svefni.
Fullt af austfirskum tónskáldum
Sóley Þrastardóttir, formaður sveitarinnar, segir afar ánægjulegt að fá að taka þátt í að frumflytja verk. Það er töluvert frábrugðið öðrum verkum á efnisskrá sveitarinnar sem hafa verið flutt margoft.
„Að taka þátt í að frumflytja nýtt verk er með því meira spennandi sem tónlistarfólk gerir. Við erum þarna að taka þátt í að búa til eitthvað alveg nýtt sem kallar á að hljómsveitin sé opin fyrir því. Það er engin fyrirmynd um hvernig verkið eigi að hljóma heldur fáum við tækifæri til að vinna að því með tónskáldinu. Það er mjög gaman og gefandi.
Þetta er í þriðja sinn sem við pöntum og frumflytjum verk eftir austfirskan höfund. Stefnan er að halda því áfram því það er fullt af austfirskum tónskáldum.“
Gefa ungu tónlistarfólki af Austurlandi tækifæri
Tónleikarnir á sunnudag hefjast á því að Joanna Natalia Szczelina, nemandi við Tónlistarskólann á Egilsstöðum, flytur fyrsta kafla úr píanókonsert Haydns nr. 11 í D-dúr með hljómsveitinni.
„Joanna Natalia hefur lært á píanó síðan hún var sjö ára gömul. Hún er gríðarlega duglegur og efnilegur nemandi sem stefnir lengra í tónlist,“ segir Sóley en Joanna Natalia lýkur í vor framhaldsprófi frá skólanum og hefur sett stefnuna á tónlistarnám í Listaháskóla Íslands.
„Það er sérlega ánægjulegt að geta gefið ungu austfirsku tónlistarfólki svona tækifæri. Eitt af markmiðum hennar er að gefa því tækifæri, annað hvort sem einleikarar eða til að spila með sveitinni,“ bætir Sóley við.
Síðasta verkið verður fjórða sinfónía Johannesar Brahms. „Hún er ein af perlum sígildrar tónlistar, ofboðslega vel samin, sýnir vel mismunandi litbrigði hljóðfæranna og hvernig þau spila saman. Hún inniheldur fallegar laglínur og það er magnað að heyra hana í lifandi flutningi.“
Enginn mætti í opnar prufur
Sinfóníuhljómsveit Austurlands var stofnuð árið 2018 og hélt sína fyrstu tónleika það ár. Í henni eru hljóðfæraleikarar sem búa og stara á Austurlandi og brottfluttir Austfirðingar sem fá liðsstyrk frá tónlistarfólki af höfuðborgarsvæðinu og Norðurlandi. Í ár eru 42 einstaklingar í sveitinni. Hljómsveitarstjóri er Guðmundur Óli Gunnarsson.
Tónleikarnir verða í Tónlistarmiðstöð Austurlands á Eskifirði á sunnudag klukkan 16:00 og þar verður sveitin við æfingar um helgina. Í vikunni, þann 1. apríl, auglýsti sveitin að mannekla hrjáði hana og því yrðu haldnar opnar áheyrnarprufur til að fylla í skörðin. Allir væru velkomnir og engrar kunnáttu á hljóðfæri krafist. „Það kom engin í prufur en ég fékk nokkur áhyggjufull skilaboð frá fólki,“ segir Sóley um aprílgabbið.