Söngelskir Vopnfirðingar vöktu athygli á heimsmeistaramótinu í Lego
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 02. júl 2025 17:01 • Uppfært 02. júl 2025 17:03
Nemendur úr Vopnafjarðarskóla fóru í vor til Houston í Texas í Bandaríkjunum til að taka þátt í hugvitskeppninni First Lego League. Hópurinn vakti þar athygli innan um 19.000 keppendur frá 65 öðrum þjóðum og frammi fyrir 30.000 áhorfendum.
Vopnfirðingar, sem keppa undir liðsheitinu Dodici- unnu áður keppnina hérlendis. Hópurinn samanstóð af þeim Viktori Pál Oddssyni, Guðjóni Snæ Ólafssyni, Alexöndru Björk Þorgrímsdóttur, Vigni Þráinssyni, Kristófer Franz Svanssyni, Baldri Geir Hlynssyni og Frey Þorsteinssyni. Með þeim í förinni vestur um haf voru kennararnir og æfingastjórarnir Sólrún Dögg Baldursdóttir og Berglind Ósk Wiium.
Keppnin er í nokkrum liðum, kynna þarf lausn á vandamáli sem lagt er fyrir keppendur með nýsköpun og síðan forrita Lego-vélmenni til að leysa þrautir. Sá hluti vekur mestu athygli.
Liðið lenti í 105 sæti í róbótakeppninni, eftir að hafa lent í vandræðum með vélmenni á öðrum keppnisdegi. Best gekk á þriðja degi í Encore-keppni, þar sem þrjú lið eru sett saman í hóp til að hanna og forrita vélmenni til að leysa þrautir sem kynntar eru á staðnum.
Liðin hafa 90 mínútur til að undirbúa sig fyrir þrautina og síðan 40 mínútur til að betrumbæta. Dodici- vann keppnina ásamt samstarfsliðum sínum frá Kaliforníu og Massachusetts.
Þá hélt liðið úti landkynningarbás og hélt uppi söng, meðal annars með íslenska þjóðsöngnum og laginu „Ég er kominn heim.“
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.