Söfnin halda utan um hjarta hvers samfélags
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 04. júl 2025 16:49 • Uppfært 04. júl 2025 16:50
Björg Björnsdóttir, nýr safnstjóri Minjasafns Austurlands, tók við embætti um síðustu áramót á tímamótum í sögu safnsins. Stofnunin fagnaði í fyrra80 ára afmæli, rekstrarfyrirkomulagið breyttist og framundan er langþráð stækkun Safnahússins. Aukin aðsókn síðustu ár og áhersla á safnafræðslu eru einnig áskoranir sem bíða nýs safnstjóra.
Múlaþing heldur eitt utan um safnið
Fljótsdalshreppur samþykkti nýverið að ganga úr byggðasamlagi með Múlaþingi um rekstur safnsins, en samstarfið hefur staðið formlega frá 1995 þótt saga þess nái allt til ársins 1943. Safnið varð ein af stofnunum Múlaþings um síðustu áramót 1. janúar 2025.
„Sem stofnun Múlaþings nýtur safnið góðs af því að vera hluti af stærri heild, t.d. hvað varðar bókhald, laun, endurskoðun og svo framvegis. Fagráð mun leysa stjórn Minjasafnsins af hólmi, það verður skipað tveimur fulltrúum Múlaþings og einum fulltrúa Fljótsdalshrepps," segir Björg.
Framkvæmdir við viðbyggingu Safnahússins
Múlaþing ætlar að auglýsa útboð á öðrum áfanga Safnahússins innan tíðar, jafnvel í sumar, en fyrsti áfangi þess var tekinn í notkun fyrir 30 árum. Mikill undirbúningur er í gangi, enda þarf að flytja allan safnkost úr núverandi geymsluhúsnæði.
„Í safnkosti Minjasafns Austurlands eru ríflega þrettán þúsund munir, stórir og smáir. Það segir sig sjálft að það er ekki hlaupið að því að flytja þennan dýrmæta varning," útskýrir Björg. Nú þegar er geymsla í Fellabæ í endurskipulagningu og viðbótargeymsluhúsnæði verður leigt frá haustinu.
Lifandi safn fyrir fjölbreytt samfélag
Björg er ekki í vafa um mikilvægi safna almennt, fyrir samfélög stór eða smá, og lýsir þeim sem svo að það séu söfn á borð við Minjasafn Austurlands sem beinlínis haldi utan um hjartað í hverju nærsamfélagi. Þess vegna þurfa söfnin, ekki síður en samfélögin sem þau þjóna, að vera lifandi og taka mið af þeim breytingum sem verða óneitanlega á samfélögum eftir því sem árin líða.
„Nýjum stjórnendum fylgja auðvitað einhverjar áherslubreytingar. Ég held að það felist sóknarfæri í því að Minjasafn Austurlands leggi á komandi árum áherslu á að ná til ólíkra hópa samfélagsins, ekki síst þeirra sem ekki hafa sterka rödd í samfélaginu. Safnið á að nota þau áhrif sem það hefur til að tryggja að fjölbreytni samfélagsins sé sýnileg, saga allra sé skráð og að raddir allra heyrist. Við þurfum líka að tryggja að nærsamfélagið taki þátt í safnastarfinu, það felur í sér verðmætasköpun fyrir samfélagið allt. „Ekkert um okkur, án okkar“ ætti að vera í forgrunni í starfi safnsins.
Við erum að vinna að því að auðvelda aðgengi að safninu, með hljóðleiðsögn um safnið á íslensku og ýmsum öðrum tungumálum, samhliða því stendur til að endurnýja merkingar á safninu til að auðvelda heimsóknina. Okkur langar einnig að skoða möguleika á leiðsögn á einfaldaðri íslensku fyrir íbúa sem eru að læra íslensku, sem og táknmálsleiðsögn. Þá er ljóst að til framtíðar viljum við færa safnið og sýningar þess, með hjálp stafrænnar miðlunar, til þeirra sem búa fjær okkur.“
Á næstu árum verða svo grunnsýningar Minjasafnsins endurskoðaðar, annars vegar er um að ræða sýninguna „Sjálfbær eining“ og hins vegar „Hreindýrin á Austurlandi“ en þær hafa verið opnar almenningi í tíu ár.
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.