Smíði hafin á nýju björgunarskipi fyrir Vopnafjörð
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 10. júl 2025 18:02 • Uppfært 10. júl 2025 18:04
Gengið hefur verið endanlega frá samningum við finnsku skipasmíðastöðina Kewatec um smíði á nýju björgunarskipi fyrir Vopnafjörð. Skipasmíðastöðin vinnur að endurnýjun bjögunarskipa landsins en það nýjasta kemur til heimahafnar á Hornafirði um helgina. Nýju skipin eru stórt stökk fram á við í allri tækni.
Um miðjan júní var skrifað undir samninga vegna sjöunda og áttunda skipsins í endurnýjuninni. Sjöunda skipið fer á Vopnafjörð og verður afhent fyrri hluta næsta sumars.
Fyrsta skipið í röðinni kom til Vestmannaeyja árið 2022 en skipin eru alls 13 að tölu. Nýtt skip fyrir Neskaupstað verður það níunda í röðinni og ætti að koma fyrri hluta sumars 2027. Um helgina verður tekið á móti fimmta skipinu þegar ný Ingibjörg kemur til Hafnar í Hornafirði.
Smíði skipanna byggir á samkomulagi sem Landsbjörg og ríkið gerðu um að ríkið greiði helming kostnaðar við fyrstu tíu skipin. Landsbjörg greiðir fjórðung og björgunarbátasjóðir á hverjum stað annan fjórðung. Kostnaður við hvert skip er um þessar mundir um 340 milljónir króna, sem þýðir að hlutur heimafólks er 85 milljónir.
Komast helmingi hraðar yfir
Nýju björgunarskipin verða stórt stökk fram á við. Þau eru í grunninn öll eins: 16 metra löng, 4 metra breið, með sex manns í áhöfn, geta dregið 4 tonn og rúmað allt að 60 manns í neyð, þar af 40 innan dyra.
Núverandi skip eru flest smíðuð á níunda áratugnum. Um borð verða nýjustu tæki og miklu betur mun fara um alla sem um borð verða. Mesti munurinn verður á hraðanum, nýju skipin ganga 32 hnúta, um tvöfalt hraðar en núverandi skip.
Skip Vopnfirðinga, Sveinbjörn Sveinsson, var smíðað árið 1987 en kom til Vopnafjarðar árið 2006. „Við erum með svæði 13, frá Fonti á Langanesi að Kögri. Siglingin er margir klukkutímar ef það þarf að fara langt,“ segir Magni Hjálmarsson, formaður björgunarbátasjóðs Vopnfirðinga um Sveinbjörn sem nær allt að 15 hnúta hraða.
Sífellt erfiðra að fá varahluti í gömlu skipin
Hann tekur þó fram að Sveinbjörn hafi reynst Vopnfirðingum vel. Flest skipanna sem verið hafa í notkun voru smíðuð í Englandi og eru þung en öflug, 45 tonn á móti 17 tonna nýju skipunum. „Skipið hefur reynst okkur vel og er mikið sjóskip. Það er varla hægt að segja að það hafi bilað. Þó er reyndin að stöðugt verður erfiðara að fá íhluti í skipin, sem er hluti af ástæðu endurnýjunarinnar,“ segir Magni.
Hann hefur fylgt eftir endurnýjun björgunarskipanna á landsvísu, frá því að sú vegferð hófst árið 2017, og setið í svokallaðri endurnýjunarnefnd. „Það var fundað með fulltrúum af öllu landinu um hvað þeir vildu hafa í nýju skipunum. Síðan kom niðurstaða sem allir voru ánægðir með því nýju skipin verða mjög vel útbúin. Ég hef farið til að taka á móti flestum þeirra skipa sem komin eru og þau eru til mikillar fyrirmyndar,“ segir Magni.
Björgunarskipið Ingibjörg sem tekið verður á móti á Höfn á hádegi á laugardag. Mynd: Landsbjörg
Fréttin byggir á lengri grein sem birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.