Ásókn í sjóði Fljótsdælinga

Tvær fjárbeiðnir frá hlutafélögum og hugmyndir um atvinnuuppbyggingu á svæðinu voru á dagskrá fyrsta fundar sveitarstjórnar Fljótsdalshrepps á árinu.

 

Sjóðir hreppsins hafa vaxið verulega seinustu ár eftir stóriðjuframkvæmdir, þrátt fyrir að sveitarfélagið tapaði tugum milljóna á bankahruninu í haust. Tap hreppsins vegna hrunsins var áætlað um 50 milljónir.

Atvinnuuppbygging

Þrír einstaklingar, Þorsteinn Pétursson Maack, Skeggi Þormar og Sveinn Ingimarsson kynntu hugmyndir sínar um atvinnuuppbyggingu í dalnum. Hugmyndir þeirra beinast einkum að skógrækt og kornrækt, til dæmis framleiðslu krossviðar. Ýmsa aðstöðu skortir samt og tæki. Samþykkt var að skipa þriggja manna starfshóp sem vinni í hugmyndum þremenningana og Búnaðarfélag Fljótsdalshéraðs verði haft með í ráðum.

ImageReiðhöll á Iðavöllum

Fulltrúar Reiðhallarinnar Iðavellir ehf. kynntu stofnun hlutafélags og áform um byggingu reiðhallar við Félagsheimilið Iðavelli. Þeir hafa óskað eftir að hreppurinn skoði þann möguleika að koma að byggingu og eignaraðild Reiðhallarinnar. Stofnaðilar hlutafélagsins eru sveitarfélagið Fljótsdalshérað og hestamannafélagið Freyfaxi. Stofnfé er 40 milljónir króna sem skiptist jafnt milli stofnaðila. Samkvæmt frumdrögum teikninga verður stærð reiðhallarinnar 24x60 fermetrar auk hesthúss, sem verður um 260 fermetrar og 200 fermetra tengibygging við félagsheimilið þar sem vera eiga snyrtingar og salur fyrir kaffiaðstöðu. Fljótsdalshérað leggur fram 18 milljónir til tengibyggingarinnar. Í reiðhöll eru auk opins sýningarrýmis, aðstaða fyrir sýningargesti og hesthús.
Upphaflega átti að flytja inn stálgrindarhús en þau hækkuðu verulega í verði með gengisfalli krónunnar í haust. Áhugi er á móti meðal verktaka á svæðinu á að byggja steypt hús. Mögulega verði húsið tilbúið að mestu í vor.

Hlutafjáraukning Barra

Fulltrúar Barra kynntu hugmyndir um hlutafjáraukningu upp á tuttugu milljónir króna. Þeir vildu að hreppurinn annað hvort yki hlutfé sitt í fyrirtækinu, eða styrkti skógarbændur í dalnum til að auka hlutafé sitt í því. Barri hefur að undanförnu byggt upp nýja aðstöðu á Valgerðarstöðum. Uppbyggingin var fjármögnuð með lánum í erlendri mynt, sem hafa hækkað verulega að undanförnu og því er lausafjárstaða fyrirtækisins erfið. Forsvarsmenn fyrirtækisins telja stöðu fyrirtækisins góða og það stefni beint gangi áætlanir eftir.
Hluthafar eru 127 talsins og núverandi hlutafé 54 milljónir. Stærstu hluthafar í Barra hf eru Skógræktarfélag Reykjavíkur, Skógarbændur á Austurlandi og Skúli Björnsson og fjölskylda. Ársverk hjá Barra eru 16. og fer starfsemi félagsins, sem er uppeldi og sala skógarplanta að mestu leyti fram á Valgerðarstöðum í Fellum, starfssemi er einnig á Hallormstað og Tumastöðum í Fljótshlíð.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.