Skip to main content

Skiptinám: Að hafa laust herbergi og pláss í hjartanu fyrir nýja manneskju

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 29. júl 2025 16:15Uppfært 29. júl 2025 16:18

Eydís Ósk Heimisdóttir á Fáskrúðsfirði er orðin alvön því að hýsa erlenda skiptinema. Eydís var sjálf skiptinemi á framhaldsskólaárum sínum og tók í vetur í annað sinn á móti skiptinema. Í vetur dvaldi Justine Olivia Breuil frá Frakklandi hjá henni. Justine náði framúrskarandi árangri á stöðuprófi í íslensku eftir veturinn.


„Ég held það sé gæfumerki að vera síðasti skiptineminn sem er sóttur af fjölskyldunni sinni. Ég var síðust í röðinni á sínum tíma því fjölskyldan mín villtist á leiðinni. Justine var líka orðin ein eftir í fyrrasumar því við töfðumst,“ segir Eydís Ósk, þar sem hún situr við eldhúsborðið heima hjá sér, með Justine á hægri hönd.

Þorri samtalsins fer fram á íslensku, enda er Justine orðin vel samræðuhæf eftir veturinn. Hún fékk 122 stig af 150 mögulegum á stöðuprófi í íslensku sem hún tók í vor. Hún viðurkennir að eiga enn auðveldara með að lesa íslenskuna en að tala hana.

Justine er 16 ára, kemur frá sunnanverðu Frakklandi og var búin með eitt ár í framhaldsskóla þar. Hún var í Verkmenntaskóla Austurlands í vetur. „Ég kom til Íslands því landið er fallegt, það virtist vera hægt að sjá fjöll úr öllum þorpum og ég vildi læra íslensku og ensku,“ segir hún.

Justine hafði reyndar aðgang að góðum kennara. Eydís kennir íslensku fyrir erlenda starfsmenn Loðnuvinnslunnar. Justine segir að henni hafi þótt íslenskan töluvert framandi þegar hún heyrði hana fyrst en það hafi líka verið heillandi, að geta lært tungumál svo frábrugðið öðrum.

Sá eitthvað á TikTok um franskan bæ


Skiptinemunum er úthlutað dvalarstað í gegnum þau samtök sem þeir fara í gegnum, í þessu tilfelli AFS, því yfirleitt er frekar skortur á fjölskyldum til að hýsa nema. Skiptinemar fara ekki á heimavist því þeim er ætlað að kynnast fósturfjölskyldunni.

Það átti hins vegar vel við Frakkann að koma á Fáskrúðsfjörð vegna sögu staðarins og þar sem götuheitin eru líka á frönsku á vegvísum. „Ég sá eitthvað á TikTok um franskan bæ. Síðan kom ég hingað og þá var þetta hann. Frönsku götuheitin hjálpuðu mér líka að læra að rata. Mér leið mjög vel hér. Ég fékk enga heimþrá nema kannski aðeins í janúar, þá var svo dimmt.“

Eignast nýja fjölskyldu


Nú stendur yfir leit að fjölskyldum til að hýsa skiptinema næsta árs. Eydís og hennar stórfjölskylda hafa langa reynslu af skiptinámi. Eydís fór sjálf sem skiptinemi til Dóminíska lýðveldisins og Justine er annar neminn sem hún tekur á móti. Bróðir hennar fór til Þýskalands. Systir hennar hefur tekið á móti þremur skiptinemum. Systurdóttir hennar er að taka við keflinu og hýsti svissneska stúlku í vetur.

Eydís og maður hennar, Steinar Grétarsson, eiga samanlagt þrjú börn á aldrinum 10-21 árs. Hún segir að það hafi ekki reynst þeim erfitt að fá einn ungling enn inn á heimilið, en það kunni að vera mismunandi eftir fjölskyldum. Í öll skiptin í hennar stórfjölskyldu hafi sambúðin með skiptinemunum gengið vel.

„Til að taka á móti skiptinema þarf maður ekki að breyta lífi sínu eða vera með dagskrá. Nemarnir koma inn í hversdagsleikann. Aðalatriði er því að vera opinn, jákvæður, bjóða fólk velkomið og hafa laust herbergi og pláss í hjartanu fyrir nýja manneskju.“

Stórfjölskylda skiptinema saman í brúðkaupi Bjarneyjar Birtu Bergsdóttur og Kristjáns Birgis Gylfasonar í lok maí. Frá vinstri: Sophie Seiler frá Sviss, skiptinemi á Íslandi 2024-25. Carla Brentini frá Sviss, skiptinemi á Íslandi 2020-21. Bjarney Birta sem hýsti sinn fyrsta skiptinema, Sophie, í vetur en á þrjár „skiptinemasystur“. Justine Breuil og loks Lisa Bittner frá Austurríki, skiptinemi á Íslandi 2012-13. Eydís er síðan fyrir framan. Mynd: Aðsend

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.