Skip to main content

Skipakomur skapa grundvöll fyrir ný fyrirtæki á Seyðisfirði

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 09. sep 2025 17:10Uppfært 09. sep 2025 17:10

Ný ferðaþjónustufyrirtæki virðast reglulega stofnuð á Seyðisfirði. Sá fjöldi ferðamanna sem kemur með skemmtiferðarskipum á hverju sumri skapar þeim góðan grundvöll. Kjarni er farinn að byggjast upp í nágrenni ferjuhafnarinnar.


Sæti, sem upphaflega er rútufyrirtæki af Fljótsdalshéraði, er meðal þeirra fyrirtækja sem í sumar hafa komið sér fyrir við ferjuhöfnina með sölubás. Það hefur verið með fastar ferðir yfir að Fardagafossi með nokkrum stoppum á leiðinni, þar sem farþegar geta farið frá borði og skoðað sig um en síðan komið aftur með næstu ferð.

Hlynur Bragason, eigandi Sætis, segir þetta hafa gefist vel. „Það eru reglulega vel yfir 300 manns sem nýta sér þennan valkost þegar skip eru á annað borð í höfn, enda eru ekki allir sem hafa þol eða getu til að labba alla leið að fossunum fallegu og þaðan af síður lengra en það. Ég sé svo fyrir mér á næsta ári, þegar Baugur Bjólfs er kominn í notkun, að bæta þeim stað við túrinn.“

Mikið spurt um veiðiferðir


Bræðurnir Hilmir og Hafþór Hilmissyni hafa í fjögur ár haldið úti bátsferðum á svokölluðum RIB-bátum undir merkjum Exploring Seyðisfjörður. Þeir hafa hug á að bæta við báti á næsta ári og bjóða þá líka upp á veiðiferðir.

„Allmargir gestir hafa líka verið að forvitnast um það hvort hægt sé að komast í veiðiferðir á haf út og á næsta ári er planið að fá til okkar handfærabát til þess einmitt að bjóða upp á stuttar og skemmtilegar veiðiferðir. Það er mjög greinilegt að það er mikill áhugi á slíku miðað við fyrirspurnir. Heilt yfir gengur bráðvel og gleðilegt að sjá að fleiri aðilar eru farnir að bjóða gestum upp á afþreyingu innan fjarðarins sjálfs,“ segir Hilmir.

Rafhjólaferðir vinsælar


Eastfjord Advetures hóf starfsemi í fyrrasumar og býður upp á ferðir um Seyðisfjörð og víðar á jeppum, rafmagnshjólum eða jafnvel gangandi. „Það er mikið meira að gera nú en fyrir ári síðan, svo eitthvað erum við að gera rétt. Það er líka mjög áberandi hversu margir vilja frekar ferðast innan Seyðisfjarðar en fara í lengri ferðir og það hefur komið þægilega á óvart.

Sérstaklega eru rafhjólaferðirnar vinsælar og allra best finnst fólki að koma á staði þar sem eru kannski engir aðrir en hópurinn á ferð. Það er greinilega eftirspurn eftir að komast í fagra náttúru en jafnframt þögn um leið,“ segir Ingvi Örn Þorsteinsson, framkvæmdastjóri.

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.