Sjósundsgarpur í stellingar fyrir morgundaginn
Miður gott veður á suðurströnd Englands síðustu daga hefur komið í veg fyrir að sjósundskappinn Sigurgeir Svanbergsson frá Eskifirði hafi getað lagt í hann yfir Ermasundið en nú er fararstjórinn bjartsýnn á að hann geti stungið sér til sunds snemma í fyrramálið.
Svo mjög er vinsælt að synda Ermasund að hver og einn sá sem við reynir fær einungis vikulangan glugga hvert sumar til að láta vaða. Gluggi Sigurgeirs hófst þann 18. júlí og því aðeins fáeinir dagar enn til stefnu en hann fékk þó góðar fréttir frá kafteini sínum seint í gærdag. Útlit er fyrir að hann geti hafið sund sitt klukkan sex í fyrramálið að óbreyttu.
Sjálfur viðurkennir Sigurgeir að hann hafi andlega verið farinn að undirbúa sig undir að alls ekkert yrði af sundinu sem yrði högg því undirbúningur fyrir sundið hefur staðið yfir í langan tíma.
„Kafteinninn hafði samband síðdegis í gær og staðfesti að ég á að geta farið af stað klukkan sjö í fyrramálið sem er klukkan sex að íslenskum tíma svo nú krossleggur maður fingur og vonar að það gangi allt saman upp. Það yrði auðvitað ægilega fúlt ef ég kemst alls ekki af stað en ég held í vonina og kafteinninn minn segir líkurnar ágætar í fyrramálið. Það eru reyndar líkur á nokkru brasi fyrstu klukkustundirnar frá Englandi vegna öldugangs og rigningar en svo á að stytta upp fljótlega og útlitið mjög gott með seinni hlutann. Þetta lofar góðu.“
Algengt er að sundið í heild taki milli sextán og sautján klukkustundir en Sigurgeir sjálfur miðar við sundið geti tekið hann allt að 20 stundum. Miðað við það kemur hann í land í Frakklandi kringum eða upp úr miðnætti annað kvöld.
Biðin líklega á enda. Sigurgeir í sjávarmálinu í Dover á Englandi en þar hefur hann beðið færis á að hefja sund sitt síðan á föstudaginn var. Mynd Aðsend