Sjaldan meira líf í Hafnargarði Seyðfirðinga
Það hefur ekki alltaf verið svo að farþegum sem stíga frá borði Norrænu á Seyðisfirði mæti iðandi líf og litríki við allra fyrstu skref en það er sannarlega raunin nú um stundir.
Hér er vitaskuld verið að tala um þá óvenjulega marga þjónustuaðila sem bjóða upp á einhvers konar þjónustu eða eru með sölu á varningi af einu eða öðru taginu í Hafnargarðinum gegnt ferjubakkanum og upplýsingamiðstöðinni.
Þar eru nú einir fjórir aðilar að bjóða fram þjónustu sína eða vörur en þeir eru Kiosk, Handverksmarkaðurinn og ferðaþjónustuaðilarnir Eastfjord Adventures og Sæti hópferðir.
Engir ganga því lengur frá borði Norrænu án þess að komast strax í nokkra markaðsstemmingu og ef ekkert þar reynist heillandi þarf aðeins fáein skref til viðbótar til að vitna útisýningu Tækniminjasafnsins um kvennastörfin í firðinum um aldamótin 1900 auk fleiri listaverka þar í grennd.
Mesti annatíminn hvað skemmtisiglingar til Seyðisfjarðar varðar fer nú brátt að hefjast þó umferð hingað til í júnímánuði hafi verið með ágætum. Júlí og fyrri hluti ágústmánaðar eru þó jafnan það tímabil þegar umferðin er sem allra mest og flestir farþegar um borð.
Fjöldi hagleikra kvenna standa saman að Handverksmarkaðnum sem endaði óvænt í Hafnargarðinum nú þar sem þeirra gamla húsnæði var ekkert í boði lengur. Mynd AE