Skip to main content

Sjaldan fleiri viðburðir í boði á Dögum myrkurs um Austurland allt

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 28. okt 2024 15:11Uppfært 28. okt 2024 15:21

Ungir sem aldnir í öllum byggðakjörnum Austurlands geta næstu dagana aldeilis gert sér dagamun meðan á hátíðinni Dagar myrkurs stendur en fjöldi viðburða eru í boði á velflestum stöðum á þessu 25 ára afmæli hátíðarinnar.

Hátíð þessi er sameiginleg hausthátíð allra á Austurlandi en meginhugmyndin að krydda aðeins upp á hversdaginn með forvitnilegum og skemmtilegum uppákomum innandyra og utan. Fagna myrkrinu ekki síður en ljósinu og njóta þessara stunda með samveru.

Dagskráin er æði viðamikil nánast alls staðar og sumir tóku jafnvel forskot á sæluna um liðna helgi. Formlega stendur hátíðin frá deginum í dag og fram á sunnudaginn kemur.

Uppákomur í boði eru af ýmsum toga; sviðamessa og bílabíó á Vopnafirði, myrkrasunnudagaskóli á Seyðisfirði, húðflúrsamkoma í Neskaupstað, morðgátukvöld á Borgarfirði eystra og litla listahátíðin í Stríðsárasafninu á Reyðarfirði svo aðeins brotabrot af heildardagskránni sé upp talið. Dagskrána í heild sinni má finna á vef Austurbrúar hér.