Skip to main content

Sigldasti maður Íslands?

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 27. des 2024 11:13Uppfært 27. des 2024 11:16

Ugnius H. Didziokas úr Hamarsfirði er eini núlifandi Íslendingurinn sem afrekað hefur að heimsækja öll aðildarríki Sameinuðu þjóðanna, samkvæmt lista NomadMania. Árangur hans er ekki síst eftirtektarverður fyrir þær sakir að hann er samkynhneigður, en hefur samt heimsótt lönd þar sem dauðarefsing er við samkynhneigð.


Ugnius fékk í vor UN Masters viðurkenningu frá NomadMania fyrir að hafa heimsótt öll 193 aðildarríki Sameinuðu þjóðanna. Hann er reyndar farinn að nálgast UN+ viðurkenninguna, en til þess þarf að bæta við 72 sjálfstjórnarsvæðum. Ugnius hefur alls heimsótt 226 aðildarríki og sjálfstjórnarsvæði. Einn annar Íslendingur hefur náð þessu

Ugnius náði takmarkinu árið 2021. „Ég fór að hugsa um þetta takmark þegar ég var kominn yfir 100 lönd. Þá vantaði ekki mikið upp á. Ég var ekkert sérstaklega að hugsa um þetta en íslenskukennarinn minn (Berglind Einarsdóttir) hvatti mig áfram.

Mér finnst setningin um að lífið sé það sem hendi þig á meðan þú sért upptekinn við að gera önnur áform ágæt. Ég lauk þessu í raun með ferð með skemmtiferðaskipi um karabíska hafið, mig vantaði eyjar þar í safnið. Það var tiltölulega einfalt því ég fann ferð sem hentaði.

Ég ólst upp í Litháen sem þá tilheyrði Sovétríkjunum. Ég held að þessi ferðalöngun hafi verið einhvers konar mótþrói gegn stjórnvöldum þar sem vildu loka fólkið inni. Ég fékk mér þess vegna vinnu á skemmtiferðaskipinu árið 1997. Í þá daga var erfitt að fá slíka vinnu, hún var eftirsóknarverð því þótt hún væri erfið þá fylgdi henni að geta séð heiminn,“ segir Ugnius sem hefur búið að mestu á Íslandi í yfir 20 ár.

„Ég hef yfirleitt verið hér á Íslandi á sumrin og unnið, en ferðast yfir veturinn. Ég fer eftir göngur og kem heim fyrir sauðburð. Mig hefur ekki alltaf langað heim aftur, en maður á yfirleitt einhvers staðar heima. Ef ég byggi í Berlín þá myndi ég líka vilja ferðast þaðan.

Rannsakaði samkynhneigð í Íran


Ugnius er samkynhneigður og eitt af því sem gerir ferðir hans merkilegar er að hann hefur heimsótt ríki þar sem jafnvel liggur dauðarefsing við samkynhneigð. Dæmi um slíkt ríki er Íran, þar sem Ugnius dvaldi sumarlangt og skrifaði meistararitgerð í mannfræði við Háskóla Íslands, um tvískinnung gagnvart samkynhneigð í Íran.

„Þetta var hugmynd sem ég fékk og mér fannst ég þurfa að gera. Skólinn gaf ekki leyfi fyrir þessu og sagði að þetta væri bilun, en ég var þrjóskur. Ég viðurkenni að ég er mjög „extreme-manneskja.“ Mér finnst gaman að láta reyna á mörkin.

Ég bjó í Teheran sumarið 2011. Ég vildi skoða lífið undir yfirborðinu, sem er allt annað en það sem er á yfirborðinu. Það tók mig smá tíma að komast inn í neðanjarðarsenuna. Ég reyndi að nota öpp sem samkynhneigðir nota en það var búið að loka á þau öll. En síðan datt ég niður á eitt, í gegnum það kynntist ég einum homma og hann kynnti mig svo fyrir fleirum. Þegar ég var kominn inn í þennan heim var ekkert mál fyrir mig að fá fólk til að tala.

Ég held að um 70% íranskra karlmanna hafi reynt samkynhneigð sambönd. Þar er bannað að stunda kynlíf fyrir hjónaband, en í staðinn er fullt af karlaklúbbum, baðstöðum eða fótboltafélögum, þar sem karlar stunda kynlíf á milli tvítugs og þrítugs. Aðrir lifa tvöföldu lífi.

Ugnius segir það upp og ofan hvort hann hafi talið sig öruggan. „Ég man að ég var að tala við mann úti á götu þegar sá þriðji kom og sagði við okkur á þýsku, því þar hafði hann búið, að við ættum að hætta að tala og halda hvor í sína áttina því við vissum aldrei hvar öryggislögreglan væri að fylgjast með.

Stundum fannst mér eins og einhver stæði utan við hótelherbergið mitt og fylgdist með mér, en ég veit ekki hvort það var rétt eða bara paranoja. Ég vann alltaf á nóttunni, meðal annars því þá voru klúbbarnir opnir. Það er fullt af samkynhneigðu fólki, dópi og áfengi í landinu, þótt það sé bannað og í raun vita allir af því.“

Allt sem ég skrifaði sendi ég sjálfum mér í tölvupósti og eyddi síðan öllum gögnum. Gestamóttakan spurði í restina af hverju ég svæfi á daginn í staðinn fyrir að skoða borgina. Ég veit ekki hvort ég hafði vakið grunsemdir eða hvort þau voru forvitin.“

Lærði að hafa varann á sér


Ugnius segist samt fyrir löngu hafa lært að hafa varann á sér á ferðalögum sínum. Það komi frá uppvextinum í Sovétríkjunum þar sem samkynhneigð var bönnuð. Það breyttist þegar Litháen varð á ný sjálfstætt. Þá tóku gildi eldri lög og í þeim var ekkert fjallað um samkynhneigð.

Ugnius var þá aðeins 16 ára og kveðst því ekki hafa sérstaka reynslu af því að vera hommi í Sovétríkjunum. Hann segir þó að samkynhneigðin hafi þar verið falin undir yfirborðinu. „Það var ekki hægt að labba um með regnbogafánann og fagna réttindum sínum. Ég þróaði þess vegna með mér ákveðna öryggisvitund, eða innbyggt öryggi, sem hefur oft komið sér vel á ferðum mínum og ekkert bara vegna kynhneigðarinnar.

Þetta nýtist mér líka til að varast vasaþjófa eða þegar ég tek út úr hraðbanka. Antananarivo, höfuðborg Madagaskar, þykir til dæmis mjög hættuleg og alltaf þegar ég tók út pening þá gætti ég mín vel. Ég hefði reyndar kannski ekki þurft þess, maður sem hjálpaði mér þar sagði að glæponarnir hefðu verið skíthræddir við mig, tattúveraðan og með hring í nefinu. En ég hef séð að Íslendingar hafa ekki þessa öryggisvitund því þeir alast upp í mjög öruggu umhverfi.“

Þjóðartáknin á peningaseðlunum


Heimili Ugiusar er skreytt minjagripum úr ferðunum. Þar eru bílnúmeraplötur frá St. Maartens og Palestínu, fáni Líbýu uppi í loftinu, blaðaúrklippur frá Norður-Kóreu og fótboltatreflar frá Angóla og Tímor.

Undir glærum borðplötunum eru peningaseðlar frá ýmsum áttum, Páskaeyju, Kúbu og Bahrein svo dæmi séu tekin. „Ég hef gaman af þeim því á þeim er yfirleitt tákn frá hverju landi. Ég var alltaf til í að taka einhverja muni með mér til að muna eftir landinu. Núna finnst mér þetta drasl. Ég kem ekki nærri öllu fyrir.“

Langar aftur til hættulegu landanna


Þegar Ugnius er spurður hvaða staði hann vilji helst heimsækja aftur koma ekki upp þessi hefðbundnu ferðamannalönd. „Mig langar mikið að fara aftur til Íran. Kannski er það þessi samkynhneigða neðanjarðarsena þar sem heillar mig. Mig langar líka að fara aftur til Sýrlands, ég átti virkilega góðan tíma þar. Síðan átti ég líka góðan tíma í Líbýu. Það er kannski hluti af mótþróaröskuninni að vilja heimsækja þessa hættulegu staði.“

Til að fá UN Masters viðurkenninguna er ekki gerð krafa um að dvelja ákveðið lengi í landi. „Til dæmis þegar ferðast er um Afríku er erfitt að ákveða fyrir fram hve lengi maður er á hverjum stað. Þegar við fórum í gegnum Alþýðulýðveldið Kongó höfðum við vegabréfsáritun sem gilti í 48 tíma. Á þessum tíma þurftum við að komast yfir einhverja 2000 kílómetra svo það var bara keyrt.

Öðru sinni var ég að ferðast með frænku minni um ríki fyrrum Júgóslavíu. Ég átti Króatíu eftir og þar sem við vorum í Svartfjallalandi, nærri landamærunum, spurði ég hvort við ættum ekki að skjótast til Dubrovnik. Við tókum næturrútu og þegar við komum yfir ætluðum við að kaupa okkur miða til baka um kvöldið. Þá var ekkert laust nema í rútu eftir klukkutíma. Þannig að við pöntuðum okkur bara leigubíl sem keyrði um með okkur um og kom okkur til baka á rútustöðina í tíma.“

Að sama skapi hefur Ugnius hitt margt fólk á ferðum sínum en tengingarnar verða ekki djúpar. „Maður hittir fólk kannski bara í hálftíma. Það vita allir að þetta er bara augnablik og njóta þess að spjalla. Þetta eru dálítil skyndikynni.“

Lærir þakklæti af því að vera án munaðar


Hann segir ferðalögin hafa átt stóran þátt í að kenna honum að vera þakklátur fyrir það sem hann hefur. „Þau hafa gert mig að miklu stærri og umburðarlyndari manneskju. Þau hafa líka verið dýrasti og erfiðasti skóli sem ég hef farið í, en ég myndi ekki vilja skipta þeim út fyrir neitt. Ég er samt feginn að hafa lokið þessu fyrir fimmtugt. Í einni ferðinni var þó með okkur rúmlega áttræður Japani sem var alltaf einn við að tjalda eða gera annað sem hann þurfti og bað aldrei um hjálp. Hann kvartaði aldrei heldur var alltaf ánægður. Mér fannst viðhorf hans ótrúlegt og hef lært af því.

Maður lærir að aðlagast aðstæðum. Maður sefur kannski úti í óbyggðum nema hvað að næsti nágranni er Boko Haram sem getur ráðist á þig fyrirvaralaust. Maður hefur ekkert nema tjaldið og símann, sem er þá það dýrmætasta sem maður á.

Við teljum okkur öll eiga einhvers konar mörk, að ætla aldrei að sofa á götunni eða borða upp úr ruslagámi. Stundum er lífið þannig að það þarf að fara út fyrir þessi mörk. Þegar þú gerir það þá lærirðu að þetta var kannski ekki svo slæmt. Stundum heyri ég fólk hér vorkenna sér yfir þessu eða hinu og mig langar mest að hlægja en hugsa til fólks sem ég hef séð og á bókstaflega ekkert en er samt hamingjusamt.

Fólki sem langar til að ferðast get ég gefið það ráð að að það er allt hægt. Fyrst ég gat þetta þá geta aðrir það. Ef viljinn er fyrir hendi þá stoppar þig ekkert. En þetta er erfitt og dýrt. Myndirnar sem við birtum af okkur á Instagram og Facebook sýna bara bestu stundirnar en þær eru langt frá því að vera veruleikinn.

Ég hef stundum bölvað sjálfum mér hvað ég sé að gera, af hverju ég hafi ekki bara verið heima í þægindum með kaffið mitt. Ég get sagt að einu sinni var ég á ferðalagi um Tsjad í mánuð þar sem hvergi var hægt að fá kaffi. Ég man eftir fyrsta kaffibollanum sem ég fékk eftir það. Þess vegna er ég þakklátur fyrir hvern kaffibolla sem ég fæ og nýt hans.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.