Skip to main content

Síðasti smábátasjómaðurinn á Fáskrúðsfirði hættur eftir „gutl“ í útgerð í meira en hálfa öld

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 01. ágú 2025 17:30Uppfært 31. júl 2025 23:30

Jóhannes Jóhannesson Michelsen, síðasti trillukarl Fáskrúðsfjarðar, hefur lagt árar í bát eftir meira en 50 ára útgerð á Litla-Tindi. Sjómennskan, sem hófst þegar hann var aðeins tólf ára á skarkolaveiðum, endaði á sömu tegund.


„Ég byrjaði á kolanetum þegar ég var tólf ára með bróður mínum. Maður var bara með eitt net, var að gutla með það og hafði hlut úr því. Það voru margir á kolanetum þá hér suður á firðinum,” segir Jóhannes um upphaf ferils síns.

Hann kom úr stórri sjómannafjölskyldu, yngstur tólf systkina þar sem faðir hans, Jóhannes Michelsen, var skipstjóri og allir sex bræður hans fóru til sjós. „Það var gott að vera litli bróðir. Maður var það þótt ég væri orðinn fullorðinn,” segir Jóhannes, sem er nú síðasti lifandi systkinið.

Sjómennskan var ekki alltaf auðveld í byrjun. Jóhannes viðurkennir að hafa verið „drullusjóveikur” í fyrstu ferðunum. „Ég varð ekkert voðalega slappur, gat ekkert étið. Síðan var ég byrjaður á Þór, átta tonna bát, þá var ég farinn að æla þegar við komum út að Kolfreyjustað. En við vorum bara þrír og ég varð að draga á spilinu -- og æla á milli. Það lagaðist eftir nokkra róðra.”

Happdrættisbáturinn sem varð lifibrauð


Stór kafli í lífi Jóhannesar hófst þegar hann og félagi hans, Sævar Níelsson, keyptu Litla-Tind, trébát með sérstaka sögu. Báturinn var einn hinna svokölluðu happdrættisbáta sem voru aðalvinningar í happdrætti DAS á sjötta áratug síðustu aldar. Litli-Tindur var dreginn út árið 1955.

„Hann var í Vestmannaeyjum fyrst. Síðan var strákur hér sem keypti hann austur, Einar Ágústsson og svo Björgvin Stefánsson. Ég réri með honum eitt sumar og keypti síðan bátinn,” segir Jóhannes sem hélt tryggð við nafnið í gegnum áratugina.

Árið 1985 keyptu þeir nýjan bát beint úr skipasmíðastöðinni Bátalóni í Hafnarfirði. Tveimur árum síðar keypti Jóhannes Sævar út úr rekstri Litla-Tinds og gerði hann frá því út sjálfur. „Mér líkaði þetta fínt, fannst gott að vera sjálfs míns herra,” segir Jóhannes.

Með ættingja til aðstoðar


Lengst af réri hann einn, en fékk síðan ýmsa til liðs við sig eftir að hafa meiðst í bakið árið 2006. „Við veiddum ýsu í janúar og febrúar og þorsk í mars. Á sumrin fórum við á kola. Eitt árið fengum við 16 tonn í júlí og verðin voru fín,” rifjar Jóhannes upp.

Góðir tímar voru á netunum í firðinum. „Árið 2003 fengum við 44 tonn og árið 2011 fengum við 36 tonn í 11 róðrum, boltaþorsk,” segir hann um eitt besta tímabilið.

Miklar breytingar hafa orðið á útgerðarumhverfinu frá því Jóhannes hóf sinn feril. Þegar hann tók að eldast, dró hann úr umsvifum og frá árinu 2010 hélt hann sig mest við netin og veiðar inni á firði.

Jóhannes dró sig svo að mestu í hlé frá veiðum eftir árið 2021 en frændi, Brynjar Ölversson, hans réri aðeins lengur á Litla-Tindi í félagi við aðra. „Það ár fórum við eina tíu róðra saman í mars, þá var ég orðinn eitthvað lélegur svo ég lét hann bara taka við. Síðan hef ég verið að gutla í netum.”

Áhrif fiskeldis á hefðbundnar veiðar


Jóhannes telur sig hafa fundið breytingu á fiskgengd innst í Fáskrúðsfirði eftir að fiskeldi hófst þar árið 2020. „Við vorum hérna suður í Krók, það var alltaf nægur fiskur þar í enda mars eða byrjun apríl. Þeir voru út við Vík núna en það var enginn fiskur þar.

Ég veit ekki hvað hefur breyst en þetta virðist vera alls staðar þar sem laxeldið kemur. Við Brynjar vorum eitt sinn að draga hér inni á Leirum og fengum boltaþorsk. Þá komu tveir strákar af norskum línubát, alveg gáttaðir á að það væri fiskur hér inni í firði. Þeir sögðu að þar sem laxeldið væri í Noregi væri enginn fiskur.”

Síðasti trillukarl Fáskrúðsfjarðar


Þegar Jóhannes hætti útgerð breyttist útgerðarmynstrið á Fáskrúðsfirði, hann er svo að segja síðasti trillusjómaðurinn þar. „Það kemur aldrei neinn niður á bryggju eins og í gamla daga. Ég var orðinn einn eftir hér á netum og hafði verið í mörg ár. Það eru nokkrir soðningadallar hérna -- bátar sem menn fara á út til að veiða sér í soðið.”

Jóhannes veltir fyrir sér hvað valdi því að trillunum fækkar. „Ég veit ekki hvað veldur því að trillunum fækkar, sums staðar annars staðar fjölgar þeim. Það er þó erfitt að kaupa kvóta.”

Tækniframfarir og byltingar


Þegar Jóhannes er spurður út í stærstu breytingar á ferli sínum nefnir hann tölvurúllurnar sem stærstu byltinguna. „Til að byrja með var maður með handsnúið. Nú eru margir á færum allt árið, það er léttast að vinna með þau eftir að tölvurúllurnar komu.

Það er líka munur að geta landað fiskinum óaðgerðum. Áður þurfti maður að gera að honum. Það breyttist þegar fiskmarkaðurinn kom,” segir hann og bætir við að það hafi verið „lúxus að losna við það þegar maður var svona einn.”

Mikkarinn á Búðum


Jóhannes býr í húsi sem kallast einfaldlega Búðir, sem geymir merkilega sögu. „Þetta er húsið hans Dúbba dúfu,” segir Jóhannes um heimili sitt, sem tengist frægum barnabókum Bryndísar Gunnarsdóttur sem byggðar eru á sögum frá fyrri eigendum hússins.

Jóhannes er elstur þeirra sem ber ættarnafnið Michelsen, sem er stór ætt, einkum á Fáskrúðsfirði. „Jú, jú -- ég er Mikkari,” segir Jóhannes. „Þetta er stórfjölskyldan. Nafnið kemur frá Færeyjum. Afi minn, faðir pabba, var Færeyingur sem bjó hér, Jakob Michelsen.”

Lokin á langri sjómennsku


Í vor seldi Jóhannes útgerð Litla-Tinds til Loðnuvinnslunnar. „Ég var búinn að ákveða að selja þeim þetta hérna. Ég spáði ekkert í öðru,” segir hann og bætir við að fyrirtækið hafi alltaf verið liðlegt við hann.

Jóhannes viðurkennir að hann muni sakna útgerðarinnar. „Það vantar eitthvað, maður getur ekki verið að gaufa í netum eða einhverju. Ég sagði við strákana að ég þyrfti að læra að prjóna -- en ég held að það sé of seint. Maður reynir að labba annað slagið og svo er gott á meðan maður getur keyrt.”

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.