Seyðisfjörður á lista yfir 50 fallegustu smábæi heims
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 03. okt 2025 08:16 • Uppfært 03. okt 2025 08:31
Seyðisfjörður hefur reglulega komist á lista erlendra ferðatímarita yfir fallegustu smábæi og þorp heims. Bærinn náði nýverið inn á lista yfir 50 fallegustu smábæi heims sem stórtímaritið Forbes tók saman.
Forbes er þekktara fyrir samantekt sína um ríkustu einstaklinga heims og umfjöllun um fjármál en það fjallar líka um lífið utan vinnu, einkum ferðalög. Í samvinnu við lúxusferðaskrifstofuna Unforgettable Travel Company tók það nýverið saman lista yfir 50 fallegustu smábæi heims.
Seyðisfjörður er fulltrúi Íslands þar, kemst í 46. sætið. Í hástemmdri lýsingu er talað um að fossar steypist fram af mosavöxnum hlíðum niður í fjörðinn sem sé svo sléttur að nammi-lituð húsin, sem kúri sig saman milli snævi þakinna tinda, speglist í honum.
Sérstaklega er minnst á regnbogamálaða götuna fyrir framan bláa kirkjuna og listasafnið Skaftfell þar sem hægt sé að skoða nýlist og panta svo plokkfisk á neðri hæðinni. Göngufólk geti farið upp í Vestdal framhjá stríðsminjum og berjalyngi.
Í efsta sæti listans er Bibury, 600 manna þorp vestur af Oxford á Englandi, Hallstatt í Austurríki í öðru og Reine í Noregi í því þriðja. Númer fimm á listanum er svo Gásadalur í Færeyjum.
Næstu þorp af Norðurlöndunum eru síðan á svipuðum slóðum og Seyðisfjörður. Jukkasjärvi norðarlega í Svíþjóð er nr. 41 og Gudhjem á Borgundarhólmi við Danmörku nr. 45.