Safnar sérstæðum seyðfirskum orðum
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 29. apr 2025 15:14 • Uppfært 29. apr 2025 15:14
Seyðfirðingurinn Ingvi Örn Þorsteinsson tók upp á því seint í haust að óska eftir upplýsingum um „seyðfirsk“ orð á samfélagsmiðlum og undirtektirnar hafa verið lítið minna en frábærar að hans sögn. Hann vill þó ekki fara náið í það hvers vegna hann hóf þá vegferð en viðurkennir fúslega að hafa lengi haft áhuga á málfarsbreytingum íslenskunnar á hinum ýmsu stöðum.
„Það var ég sjálfur sem tók upp á þessu en ég er reyndar með góðan liðsstyrk, því með mér er hún Elfa Hlín Sigrúnar Pétursdóttir safnstjóri Tækniminjasafnsins. Hugmyndin er sú að úr þessari orðasöfnun verði eitthvað skemmtilegt en ég vil ekki fara dýpra í hvað það verður eða getur orðið að sinni. “
Ingvi segir viðbrögðin hafa verið afar góð og að fjöldi ábendinga hafi borist og enn taki hann glaður við ábendingum hvers konar.
„Ég tala þarna sérstaklega um seyðfirsk orð, sem ég vissi að voru og eru allnokkur, sem fáir tala annars staðar en hér á Seyðisfirði en ég tek líka gjarnan við orðum sem koma annars staðar frá Austurlandi.“
Aðspurður um hvað hann hyggist fyrir með orðasafnið þegar þar að kemur segir Ingvi leyndardómsfullur að eitt og annað komi þar til álita. Hann viðurkennir þó að hann sjálfur sjái fyrir sér að slíkt safn gæti orðið að einhvers konar kynningar- og eða söluvöru.
„Það allt er bara í þróun en í grunninn er ég að hugsa um að búa til einhvers konar söluvöru í kjölfarið. Það er öllum frjálst að senda mér ábendingar og það þarf ekki að einskorðast við Seyðisfjörð sérstaklega því það er gaman að fá að heyra hluti annars staðar frá. Fólk má endilega senda mér slíkt á netfangið
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.