Skip to main content

Safna sögunum frá Eskifirði sem ekki hafa verið skráðar

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 15. ágú 2025 10:08Uppfært 15. ágú 2025 10:10

Didda Flygenring og Sigríður Hafdís Hannesdóttir hafa í sumar safnað sögum og minningum Eskfirðinga sem til þessa hafa ekki þótt nógu merkilegar til að vera ritaðar. Þær halda áfram að safna á bæjarhátíðinni Útsæðinu um helgina og sýna afraksturinn með bæjargöngu í næstu viku.


„Við höfum mikið velt fyrir okkur hvað hefur verið skrifað niður. Sumt er skráð í bæjarsögur og annað ekki.

Við höfum enga mælikvarða á sögurnar sem við söfnum, annað en að þetta séu staðbundnar minningar. Þær geta verið um fyndna atburði eða annað sem rifjast upp í hvert sinn sem gengið er framhjá ákveðnum stað.

Þetta eru sögurnar sem aldrei gleymast en þykja þó ekki nógu merkilegar til að skrásetja. Í fyrra fengum við til dæmis sögu um vinahóp sem tjaldaði á umferðareyju og tók með afmæliskökur,“ segir Didda.

Urðu vinkonur í skiptinámi í Amsterdam


Hún kemur úr Reykjavík en Sigríður er alin upp á Eskifirði og býr þar í sumar. Þær kynntust fyrst í námi í grafískri hönnun í Listaháskólanum en urðu fyrir alvöru vinkonur þegar þær fóru til Amsterdam úr skiptinám. Úr varð að þær kláruðu námið þar.

„Það var opnara og að mörgu leyti listrænna en grafíska hönnunin hér heima. Við gerðum meðal annars sýningar. Sérstaklega Siggu hefur lengi langað að gera eitthvað hér heima og datt í hug þetta verkefni.“

Verða með bæjarrölt í næstu viku


Þær hafa í sumar safnað sögum og verða með sérstakan bás í Bókabúðinni Eskju á laugardag frá 16-18 til að taka á móti enn fleirum auk þess að sýna fyrstu verkin úr söfnuninni. Þær munu síðan nota afraksturinn í litla sýningu í næstu viku.

„Okkur hefur langað að skrásetja sögur á listrænni hátt en oft er gert en við höfum líka hugsað um hvernig þær eru sagðar eða hvaða sögur hægt er að lesa út úr hlutum sem maður sér. Ís á götunni segir okkur til dæmis annað hvort að hann hafi bráðnað í hita eða einhver misst hann.

Við ætlum að setja upp litla sýningu, eða vísbendingar, um sögur í næstu viku og á miðvikudag klukkan 19:00 verðum við með bæjarrölt þar sem við segjum frá minningum fólksins.“