Skip to main content

Rýmkast um frístund og félagsmiðstöð í Austurborg

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 05. mar 2025 16:57Uppfært 05. mar 2025 17:00

Félagsmiðstöðin Drekinn og frístund Vopnafjarðarhrepps fá aukið pláss í Austurborg á Vopnafirði. Foreldrar taka til hendinni við endurnýjum félagsmiðstöðvarinnar og börnin eru með í ráðum við breytingarnar.


Vopnafjarðarhreppur keypti húsið allt síðasta haust, en AFL starfsgreinafélag var áður með skrifstofu sína í innri endanum.

Frístund barna í 1. – 4. bekk og félagsmiðstöðin deildu áður ytri hlutanum og var þar oft þröngt á þingi, flytja þurfti til húsgögn innan dagsins eftir því sem nýtingin breyttist. Frístundin hefur nú verið flutt í innri endann og félagsmiðstöðin fær sitt eigið rými. Í Drekanum hafa staðið yfir breytingar þar sem foreldrar leggja fram vinnu við að mála rýmið.

Börnin í sveitarfélaginu, einkum í gegnum ungmennaráð, hafa haft sitt að segja um breytingarnar. „Ástæðan fyrir því að við erum komin hingað er að við hlustuðum á börnin. Þau báðu um breytingar,“ segir Þórhildur Sigurðardóttir, verkefnastjóri frístunda-, æskulýðs- og fjölmenningarmála hjá Vopnafjarðarhrepp.

Barnvænt samfélag


Árið 2021 gerðist Vopnafjarðarhreppur aðili að barnvænu samfélagi, verkefni á vegum UNICEF – Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna. Stefnt er að því að sveitarfélagið fái fulla vottun síðar á þessu ári.

Aðildin kom upp úr háskólanámi Þórhildar í tómstunda- og félagsfræði, þar sem hún kynntist verkefninu. Hún segir að verkefnið snúist meðal annars um að hleypa börnum og ungmennum í auknu mæli að ákvarðanatöku í sveitarfélaginu, einkum um þeirra málefni.

Nýr kafli í sögu Austurborgar


Austurborg er sögufrægt hús á Vopnafirði, upphaflega byggt á síldarárunum fyrir farandverkafólk. Lengst af hýsti það starfsemi verkalýðsfélaganna en einnig saumastofu og um tíma dagvöruverslun sem Verkalýðsfélag Vopnafjarðar rak. „Ég vann í henni þegar ég var 18-19 ára gömul,“ segir Þórhildur.

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.