Ríkið þarf að koma að málum til að fjölga íbúum á Austurlandi
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 22. júl 2025 19:01 • Uppfært 22. júl 2025 19:35
Þrátt fyrir gott atvinnuástand og háar tekjur fækkar Austfirðingum ekki í takt við það sem gerist í öðrum landshlutum. Meðalaldur hækkar og í minni þorpum hefur þjónusta dregist saman. Í vor var haldið málþing á vegum Sambands sveitarfélaga á Austurlandi til að ræða hvað hægt væri að fjölga íbúum.
Frummælendur voru tveir, þeir Jón Þorvaldur Heiðarsson, frá Háskólanum á Akureyri og Vífill Karlsson frá Háskólanum á Bifröst.
Hagstætt að fjölga íbúum utan höfuðborgarsvæðisins
Jón Þorvaldur fór yfir hagtölur Austurlands og minnti á að fjórðungurinn skipti málið fyrir þjóðarbúið. „Austurland er dýrmætt fyrir Íslendinga og Austurland er líka tækifæri fyrir Ísland. Við gætum spurt hvort nóg sé að byggja á suðvestursvæði landsins eða þarf að byggja um allt land?
Hvar veldur íbúafjölgun miklum kostnaði. Ég setti að gamni fram töluna 200 til 300 milljarðar króna sem er það sem verið er að tala um að ríkið ætlar að setja í það að fjölga fólki enn meira á höfuðborgarsvæðinu. Þar er ég bara að tala um Borgarlínuna.
En hvar myndi fólksfjölgun bæta allan grundvöll fyrir betri og meiri þjónustu? Hvar hefði fólksfjölgun jákvæðustu áhrif á Íslandi?“ Hér [á Austurlandi] höfum við landshluta þar sem væri betra að hafa meiri mannfjölda til að geta gert ýmsa hluti varðandi þjónustu og til að standa undir alls konar hlutum. Kannanir benda til að fólksfjöldi hér sé of lítill til að geta staðið undir þeim kröfum sem nútímafólk gerir til þjónustu,“ sagði hann.
Akureyri og Egilsstaðir þykja vænlegir kostir
Hann sagði að til að til að fjölga íbúum þyrfti að bæta samgöngur, gera þær bæði hraðari og öruggari. Hann sagði að Austurland í heild myndi græða á samþjöppun íbúa og nefndi Egilsstaði og Fellabæ sem sterkan miðpunkt.
„Í ljós kemur að þegar fólk er spurt hvar það myndi vilja búa, ef húsnæðisverð væri hið sama um land allt, að bæði Akureyri og Egilsstaðir koma vel þar út. Það myndi þá fyrst og fremst þurfa íbúðir og mikið af þeim. Það þyrfti eitthvað sérstakt átak til að koma slíku á koppinn og íslenska ríkið þyrfti að koma duglega að slíku átaki. Allar stórar áætlanir um uppbyggingu þyrftu að njóta góðs stuðnings ríkisins.
Þar þyrfti fyrst svona móralskan stuðning þar sem allir sem einhverju ráða væru einhuga um slíkan stuðning. Það þyrfti fleiri ríkisstörf, styrkja þyrfti áætlunarflug meira og nýsköpun sömuleiðis. Aukinn stuðning við listir og menningarstarfsemi. Þjónusta og afþreying þarf að vera til staðar til að trekkja að fólk.“
Hver er tilvalin stærð þéttbýlis?
Vífill kom inn á ýmis atriði, til dæmis að hrepparígur hefði beinlínis neikvæð áhrif á búferlaflutninga. Enn eimir af honum á Austurlandi þótt hann hafi minnkað síðustu áratugi. Hann hefur stýrt landshlutakönnunum en samkvæmt þeim skipta ýmis atriði máli þegar fólk velur sér búseti.
Þar á meðal er íbúafjöldi á viðkomandi stað. Af öllum þeim flokkum sem fólk er spurt út í, í þeim könnunum, virðast vera takmörk til staðar. Bæir að 20 þúsund manns hafa jafnan fleiri kosti en þeir minni en ef íbúafjöldi fer mikið yfir þá tölu fer ánægja íbúanna dvínandi. Vífill sagði að allt slíkt þurfi að hafa í huga við alla stefnumótun til framtíðar.
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.