Reynir sig við sund sem aldrei áður hefur verið reynt
Snemma næsta sumar mun sundkappinn Sigurgeir Svanbergsson reyna sig við sund sem enginn hefur nokkurn tímann áður lagt í og með því safna fjármunum fyrir Píeta-samtökin í þriðja skiptið í röð.
Eftir gríðarleg vonbrigði sjósundskappans Sigurgeirs Svanbergssonar frá Eskifirði að ná ekki að ljúka hinu frægu Ermasundi í sumar sem leið hefur kauði nú ákveðið hvað verði næst á döfinni sumarið 2026. Það verður langt og erfitt sund sem enginn hefur nokkurn tíma reynt áður.
Sigurgeir hefur síðustu dægrin kynnt, eða tísað eins og það er þekkt á samfélagsmiðlum, að hann sé búinn að ákveða sitt næsta sund og eins og hans er eðli vill hann toppa allt sem hann hefur áður gert.
Leyndarmál fram á næsta ár
Hann vill ekki segja frá hvað hann ætlast fyrir heldur einungis segja að framundan sé sund sem ekki nokkur maður hefur reynt áður og undirbúningur sé hafinn við að gera það sundið að stórum viðburði.
„Það er þegar búið að kortleggja hvað verður gert og aftur mun ég synda til styrktar Píeta-samtökunum. Þetta verður sund sem aldrei áður hefur verið reynt eða gert en ég er ekki í vafa um að þetta á eftir að setja nýtt viðmið í opnu sundi. Allt er þetta mjög spennandi fyrir mig sem elska ekkert meira en að gera meira en ég gerði síðast en ég vona innilega að fá sem flesta með og þannig safna vel fyrir Píeta.“
Synt í maímánuði
Þrátt fyrir að blaðamaður hafi gengið á Sigurgeir með meiri upplýsingar vildi hann ekki segja neitt um staðsetningu né sjálft sundið að svo stöddu. Einungis það að á þessari stundu sé markmiðið að sundið fari fram í maímánuði og það verði síst auðveldara en Ermasundið í sumar þar sem Sigurgeir var mjög óheppinn með að lenda í óvenju sterkum hafstraumum örskammt frá landi í Frakklandi.
„Þetta er frábrugðið því sem ég hef gert áður að vissu leyti en ekki síður erfitt og sundið mun taka sólarhringinn allan ef ekki gott betur. Dagsetningarnar eru þegar ákveðnar og það er ekkert sem getur stoppað mig í þessu annað en ég sjálfur. Þetta er ekki slík staðsetning að veður eða annað slíkt eigi að hafa áhrif á hvort ég fer af stað eða ekki eins og gerðist í Ermasundinu.“