Þórbergssetur í Suðursveit hlýtur nýsköpunarverðlaun
Þórbergssetur, á Hala í Suðursveit, fékk nýverið Nýsköpunarverðlaun Samtaka ferðaþjónustunnar fyrir öfluga uppbyggingu menningartengdrar ferðaþjónustu.
Setrið er einnig ákaflega vel úr garði gert, hönnun þess frumleg og vel vandað til allrar umgjörðar. Gestir fá góðar móttökur og er öll grunnþjónusta fyrir hendi á staðnum.
Þannig er ljóst að Þórbergssetur hefur frá því að vera góð hugmynd, náð að verða virkt og skapandi afl í Suðursveit sem eflir orðstír og framleiðni ferðaþjónustu og er þannig vel að nýsköpunarverðlaunum komið.
Hlutverk Nýsköpunarsjóðs er að hvetja til nýsköpunar og vöruþróunar. Stjórn sjóðsins skipa: Árni Gunnarsson, formaður SAF, sem er formaður dómnefndar en honum til ráðgjafar voru dr. Edward H. Huijbens, forstöðumaður Rannsóknamiðstöðvar ferðamála og Hörður Erlingsson hjá Erlingsson - Naturreisen.
Í stefnumótun Samtaka ferðaþjónustunnar, SAF kemur m.a. fram að stefnt skuli að því að nýsköpun og fagmennska innan greinarinnar tryggi arðsemi allt árið enda byggi ferðaþjónustan á ímynd, gæðum, þekkingu og traustum innviðum. Auk þess segir að landið allt verði kynnt til eflingar ferðaþjónustu og að náttúra, mannlíf og menning landsins gegni lykilhlutverki. Hvatt er til aukinnar samvinnu innan greinarinnar til að styrkja enn frekar innviði og efla markaðssetningu landsins sem heildar. Stjórn sjóðsins tekur tillit til þessara þátta við val sitt.