Skip to main content

Rannsókn: Íslendingar flytja til að fara í nám en flytja til baka fyrir fjölskylduna

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 24. jún 2025 16:46Uppfært 24. jún 2025 16:47

Ný umfangsmikil rannsókn byggðarannsóknarstofnunarinnar Nordregio, samstarfsaðila Austurbrúar leiðir í ljós að Íslendingar hafa mun sterkari tengsl við uppeldisstaði sína en aðrar Norðurlandaþjóðir. Fjölskylduvænt umhverfi, öryggi og persónuleg tengsl eru lykilþættir sem draga fólk aftur heim, á meðan Íslendingar eru líklegastir til að flytja að heiman upphaflega til að stunda nám. Húsnæðismál hafa óvenju mikil áhrif á búferlaflutninga Íslendinga.

Íslendingar opnari fyrir að snúa aftur heim


Af helstu niðurstöðum rannsóknarinnar má nefna að almennt er fólk ánægt þar sem það býr núna, einkum Íslendingar. Athyglisvert er að 40% Íslendinga eru opnir fyrir að snúa á æskustöðvar sínar, sem er hærra hlutfall en annars staðar.

Viðhorf Íslendinga gagnvart sínum uppeldisstað er almennt jákvætt. Þeir segja að hann sé skemmtilegur, auðvelt að eignast nýja vini, félagsleg samstaða sé sterk, náttúran falleg og umhverfið fjölskylduvænt. Íslendingar skera sig úr í mörgum þessara þátta, en þó sérstaklega varðandi þau persónulegu tengsl sem þeir hafa við æskustöðvarnar.

Menntun dregur ungt fólk að heiman


Um 55% þeirra sem flutt hafa að heiman á Íslandi gerðu það til að fara í nám. Það er hærra hlutfall en á hinum Norðurlöndunum. Um 45% nefna atvinnu, sem er svipað og á hinum Norðurlöndunum. Fleiri þættir eru áberandi á meðal Íslendinga, eins og aðgengi að opinberri þjónustu, þar sem þeir skera sig mjög úr en einnig menning og áhugamál.

Þegar spurt er hvers vegna fólk hafi flutt síðast segja um 50% Íslendinga að það hafi verið vegna húsnæðis. Ísland sker sig þar verulega frá Norðurlöndunum.

Fjölskyldan og öryggið í fyrsta sæti


Í svörum við spurningunni um hvað skipti fólk mestu við núverandi búsetustað, nefna um 65% Íslendinga fjölskylduvænt umhverfi, sem er langtum hærra hlutfall en annars staðar. Öryggi og ánægja eru einnig mikilvægir þættir.

Félagsleg fjölbreytni er atriði sem sérstaklega kemur fram hjá þeim sem aldrei ætla að fara til baka. Á móti eru persónuleg tengsl Íslendinga við sinn gamla stað sterkari á meðal þeirra sem geta hugsað sér að flytja til baka. Menntun og atvinna skipta þá litlu máli. Sá hópur horfir einnig á náttúruna, aðstæður fjölskyldunnar og húsnæði.

Menntaðir Íslendingar fastir fyrir


Ekki ætti að koma á óvart að atvinnulausir eru hvað viljugastir til að flytjast búferlum. Almennt er menntaðra fólk viljugra til að flytja en þannig er ekki farið um Íslendinga, menntaðir Íslendingar eru síst viljugir til að flytja þaðan sem þeir eru.

Hjá öðrum þjóðum eru konurnar viljugri til að fara aftur til baka en þannig er ekki farið með karlana.

Fjarvinna breytir viðhorfum til dreifbýlis


En þótt Íslendingar séu tilbúnir til að flytja er ekki þar með sagt að þeir séu tilbúnir til að fara í algjört dreifbýli. Um þriðjungur getur ekki hugsað sér það og er það hæsta hlutfallið. Aðeins 43% Íslendinga eru til í að flytja í dreifbýli, samanborið við 65% Svía. Ódýrt húsnæði eða starf með hærri launum gæti helst fengið Íslendingana til að skipta um skoðun.

Konur og fólk með börn eru síður til í að íhuga dreifbýlið en samanburðarhópar. Þetta breytist hins vegar ef spurt er hvort fólk geti hugsað sér að vinna fjarvinnu, sérstaklega á meðal barnafólksins en líka á meðal kvennanna. Íslendingar eru almennt opnari fyrir fjarvinnumöguleikanum en hina þjóðirnar.

Tengslin mikilvægari en markaðssetning


Skýrsluhöfundar telja að markaðssetning og pólitísk stefnumörkun sé ekki endilega það sem skili mestum árangri til að fá fólk til að flytja í dreifbýli, heldur sé best að höfða til þeirra sem hafa tengsl við staðinn og búa til umhverfi sem það fólk vill sækja í.

Skýrsluhöfundar benda einnig á að könnunin sé gerð á meðal fólks undir fertugu, sem sé sá aldur þar sem fólk sæki helst í þéttbýli. Við nánari skoðun komi í ljós að aukin lífsgæði svo sem nálægð við náttúru og öryggi skipti meira máli þegar fólk eldist.

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.