Ra Tack opnar nýja sýningu í Neskaupstað
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 27. ágú 2025 18:55 • Uppfært 27. ágú 2025 18:55
Seyðfirski listmálarinn Ra Tack opnar nýja sýningu sína í Þórsmörk í Neskaupstað á laugardag. Ra Tack hefur haldið fjölda einkasýninga, bæði hérlendis og erlendis, sem vakið hafa athygli fyrir sterk málverk.
Í tilkynningu segir að í verkunum á sýningunni, sem kallast „Waiting for you to come“ sameini Ra Tack áþreifanlega áferð og abstrakt framsetningu við táknræn mynstur sem endurspegli ást, þrá, sögu og sjálfsmynd. Úrkoman sé list sem tali jafnt til hins áþreifanlega sem hins óáþreifanlega í tilverunni og hvetji áhorfendur til að íhuga margbreytileika listræns heimsins.
Ra Tack (hán) er belgískur listmálari sem býr á Seyðisfirði. Verk háns leiða áhorfendur inn í gróskumikinn, tímalausan heim sem er í senn kunnuglegur og ævintýralegur, útópía full af þrá. Olíumálverk Ra Tack kanna þemu umbreytingar, tvíhyggju, ástar og kyrralífs, og blanda saman impressjónískri orku og ögrandi fjarveru vistfræðilegrar hvatar.
Ra Tack hefur haldið fjölda einkasýninga, meðal annars You are in my world now á Skriðuklaustri (2024), Tell me I will be fine after all hjá Associate Gallery (2024) og Let Me Untangle Your Tenderness í IMT Gallery, London (2022). Auk þess hefur hán tekið þátt í fjölmörgum samsýningum, meðal annars í Hafnarborg (2024), Skaftfelli (2023), IMT Gallery í London (2023), Winter Lights Festival í Reykjavík (2022) og Ásmundarsal (2021).
Sýningin stendur út október.