Orkumálinn 2024

Þorrinn til Gunnhildar og Þráins

Þorrinn var veittur í fimmtánda sinn á Egilsstaðaþorrablóti seint í janúar. Að þessu sinni fór hann til hjónanna Gunnhildar Ingvarsdóttur og Þráins Skarphéðinssonar fyrir að viðhalda þjóðdansahefð Íslendinga.

rinn_og_gunnhildur_vefur.jpg

Þorrinn er viðurkenning fyrir vel unnin störf í þágu góðs mannlífs á Héraði og veittur þeim sem skilað hafa mikilsverðu og óeigingjörnu framlagi til samfélagsins á sviði félagsmála, menningar, lista, afþreyingar eða atvinnu. Gunnhildur og Þráinn segja óneitanlega ánægjulegt að einhverjum þyki einhvers um vert það sem þau hafi verið að gera á umliðnum árum.

 

Tíu Fiðrildaferðir á erlenda grund

  

Soffía Lárusdóttir, forseti bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs, afhenti Þorrann. Í ávarpi sagði hún meðal annars að Þráinn og Gunnhildur hefðu stofnað Þjóðdansafélagið  Fiðrildin á síðasta fundi Þorrablótsnefndar árið 1975. ,,Í starfi Fiðrildanna hefur verið lögð mikil áhersla á að viðhalda íslenskum þjóðdönsum og þjóðbúningum,“ sagði Soffía. ,,Hefur Þráinn verið aðalkennari  félagsins og formaður nær óslitið frá stofnun þess. Þau hjónin hafa kennt þjóðdansa í flestum skólum á Héraði og kennir Þráinn ennþá í yngri deild Hallormsstaðaskóla, en Fiðrildin eru auk þess með danskennslu í leikskólum á Egilsstöðum.    

Þau hjónin hafa með vinnu sinni í Fiðrildunum átt drjúgan þátt í að halda við þjóðdansahefð okkar Íslendinga með óteljandi sýningum bæði innan og utan Austurlands. Þá hafa þau skipulagt og stjórnað 9 utanlandsferðum þar sem Fiðrildin hafa kynnt þjóðdansa og þjóð. 10. utanlandsferðin er nú í undirbúningi. 

Þráinn og Gunnhildur hafa einnig verið virk og gegnt trúnaðarstörfum í öðru félögum. Má þar nefna að Gunnhildur hefur verið í Kvenfélaginu Blákklukkum frá árinu 1976 og Þráinn hefur frá sama ári verið félagi í Rotary. Og hér á árum áður stjórnuðu þau Héraðsblótum í Valaskjálf sem voru sérsniðin fyrir erlenda ferðahópa með þorramat og þjóðdönsum.

Síðustu 18 ár hafa Fiðrildin gefið út blað þar sem fjallað er um þjóðlega hluti; dans, handverk og listir. Þar eru hæg heimatökin hjá þeim hjónum en þau hafa nú í 37 ár rekið Héraðsprent sem er best búna prentsmiðjan hér á Austurlandi,“ sagði Soffía.

     

Mynd: Gunnhildur Ingvarsdóttir og Þráinn Skarphéðinsson með Þorrann, listaverk eftir Hlyn Halldórsson frá Miðhúsum./SÁ

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.