Nýtt handverkshús opnar í Fellabæ
Það er gnótt fólks um allar trissur sem hefur sér til dundurs að vinna fallegt handverk af einhverju taginu en hvers vinna kemur aðeins fyrir augu fjölskyldu eða ættingja í besta falli. Því skal meðal annars breyta með nýju handverkshúsi sem opnar í Fellabæ á morgun.
Þar er um að ræða handverkshúsið Fjárhúsið sem er bókstaflega staðsett í gömlu fjárhúsunum að Helgafelli en þar hafa iðnaðarmenn unnið í allt sumar að því að færa hlutina til betri vegar innandyra sem utan að sögn Sylvíu Helgadóttur sem staðið hefur fyrir þessu verkefni. Hún segir hugmyndina hafa lengi blundað í sér.
Koma handverksfólki á framfæri
„Þetta eru bókstaflega gömlu fjárhúsin hér að Helgafelli sem er ættaróðalið mitt en pabbi minn á staðinn. Okkur gafst tækifæri á að taka þetta góða rými í gegn og þá vaknaði spurningin um hvað væri ráðlegt að gera. Það hefur alltaf verið mjög mikið af flottum konum í kringum mig sem eru góðar í handverkum og mér alltaf fundist sorglegt hvað þær hanga mikið heima hjá sér og fela sína miklu hæfileika. Þannig að ég vildi endilega efla þetta fólk til að beina þekkingu þeirra áfram.“
Að sögn Sylvíu er hugmyndin að byrja rólega nú þegar líða fer að lokum sumars en strax í vetur bjóða upp á námskeið og mig langar að hvetja alla sem hafa góða þekkingu á handverki og hafa áhuga að dreifa þeirri vitneskju að hafa samband við mig. Fjárhúsið er kjörinn staður undir slíkt ef fólk hefur áhuga því nóg er rýmið og við þegar með handverksfólk sem vill taka þátt. Í stuttu máli á að nýta veturinn til að búa í haginn og safna saman áhugasömu handverksfólki sem hefur áhuga að vera með okkur í þessu verkefni.
Námskeið og saumaklúbbur
„Einn angi þess er að halda svona hálfgerðan saumaklúbb handverksfólks einu sínni í mánuði í allan vetur þar sem allir eru velkomnir til að vinna að sínu en um leið njóta samveru skemmtilegs fólks. Raunin er sú að ýmislegt austfirskt handverk sem selt er rýkur út hvort sem er hér í Skemmunni að Helgafelli eða að Grund við Stuðlagil. Ferðafólk hefur almennt áhuga á að verða sér úti um minjagripi og ekki verra ef um handgerða hluti er að ræða úr nærsveitum. Ég sé alveg fyrir mér að einhver slík sölustarfsemi verði hér í Fjárhúsinu frá næsta sumri svo enn fleiri geti notið góðs af fjölgun ferðafólks.“
Dyr Fjárhússins opna klukkan klukkan 12 á morgun og húsið opið áhugasömum til klukkan 16.
„Við ætlum að bjóða upp á kaffi og léttar veitingar, sýna húsið og kynna námskeiðin sem framundan eru. Byrjum þetta allt saman með góðu rólegu spjalli við þá sem hafa áhuga á að mæta. Allir eru velkomnir að kíkja til okkar.“