Nýtt fólk kemur að rekstri söluskálans á Eskifirði
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 16. sep 2025 18:41 • Uppfært 16. sep 2025 19:38
Hjónin Helga Dröfn Ragnarsdóttir og Guðjón Einarsson hafa tekið við rekstri söluskálans á Eskifirði. Þau þekkja staðinn vel þar sem foreldrar Einars ráku staðinn um árabil.
Skálinn, sem lengi var rekinn undir merkjum KR-ÍA, skipti um hendur snemma árs 2024. Starfsemi nýs rekstraraðila gekk ekki upp og því var skálinn laus aftur í byrjun þessa árs.
„Bæði ég og maðurinn minn störfuðum hér með þeim lengi vel, ég sjálf frá árinu 2008 og maðurinn minn frá unglingsaldri árið 2002. Þannig að við þekktum alveg hvað við gætum verið að fara út í og eftir tiltölulega skamman umhugsunartíma ákváðum við að láta bara reyna á þetta,“ segir Helga Dröfn.
Staðurinn gengur nú undir nafninu Silfurskálinn. Hann hefur um áraraðir verið hálfgerður samkomustaður Eskfirðinga. Þar er hefð fyrir heitum mat í hádeginu og síðan skyndibita á kvöldin. Fyrir utan að sjoppan og bensínstöðin eru gjarnan félagsmiðstöðvar bæjanna.
Helga segir að hún og Guðjón hafi leitað til tengdaforeldranna, Einars Björnssonar og Guðbjargar Kristjánsdóttur um ráð áður en þau fóru af stað.
„Sennilega það fyrsta, og mikilvægasta, sem við gerðum strax var að einfalda matseðilinn og færa okkur aðeins til fortíðarinnar hvað það varðar. Í sem stystu máli þá fórum við bara aftur í það sem virkaði þegar tengdaforeldrar mínir ráku staðinn og margir bæjarbúar muna vel þann tíma og það sem þá var í boði hér matarkyns.
Þetta hefur haft í för með sér að við höfum náð góðum tökum á rekstrinum nú þegar og með bæjarbúa með okkur í liði er fátt sem kemur í veg fyrir að þetta ævintýri gangi upp.“
Nýju eigendurnir ásamt sínum dyggasta aðstoðarmanni, dótturinni Örnu Dröfn, á bak við afgreiðsluborðið fyrir skemmstu. Mynd: AE
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.