Skip to main content

Nöfnurnar snéru bökum saman til að fjármagna nýtt útitækjasvæði

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 26. maí 2025 17:24Uppfært 26. maí 2025 17:26

Nöfnurnar, Guðrún Smáradóttir og Guðrún Sigríður Guðmundsdóttir, tóku höndum saman um að kaupa og koma fyrir æfingatækjum á góðum stað utandyra í Neskaupstað. Tækin eru komin upp eftir nokkurn aðdraganda.


„Það var sumarið 2020 sem ég sá og prófaði svona útiæfingaaðstöðu í Garðabænum. Þetta fannst mér svo góð hugmynd að ég fór umsvifalaust á netið og sagðist óska þess að slík aðstaða væri fyrir hendi heima í Neskaupstað.

Þann bolta greip nafna mín Guðrún, sem rekið hefur nytjamarkaðinn Steininn lengi, á lofti strax og spurði hvernig hún gæti orðið að liði til að gera þetta að veruleika. Þá fór boltinn að rúlla fyrir alvöru,“ segir Guðrún Smáradóttir.

„Við byrjuðum á að forvitnast hjá Fjarðabyggð hvort sveitarfélagið gæti hugsað sér að þiggja svona gjöf. Það tók sveitarfélagsfólk æði langan tíma að svara þessari fyrirspurn. Svo langan eiginlega að ég fór að hugsa um að kanna hvort Múlaþing hefði áhuga á slíkri gjöf.

Svo þegar jákvætt svar kom loks, þá tóku við umræður í bænum um hvar svona garði ætti að koma fyrir og sitt sýndist hverjum um það. Fólk hafði misjafnar skoðanir á því hvar vænlegast væri að staðsetja garðinn eða hvort skipta ætti tækjunum niður kannski eftir göngustígum.

En hafandi skoðað þessi mál erlendis, þá þótti sannað að það væru mistök að skipta tækjunum niður á marga staði, reynslan af því í mörgum borgum og byggðum væri ekki góð. Allra best væri að hafa öll tækin á einum og sama staðnum.

Svo leið og beið aðeins eftir því að sveitarfélagið sýndi lit með staðsetninguna og á meðan voru öll tækin bara hérna í geymslu hjá okkur í held ég allt að tvö ár. En við fengum á endanum loks góða lendingu í þetta mál og teljum að staðsetningin sé með þeim allra bestu sem við hefðum getað hugsað okkur.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.