Níundi bekkur Nesskóla sýnir Línu Langsokk
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 18. feb 2025 12:42 • Uppfært 18. feb 2025 12:45
Níundi bekkur Nesskóla frumsýndi í gærkvöldi leikritið um Línu Langsokk. Áralög hefð er komin á að bekkurinn setji upp leikverk í fjáröflunarskyni fyrir skólaferðalag. Bekkurinn leggur mikið á sig því sýningin er sýnd fimm sinnum á fjórum dögum.
„Frumsýningin gekk mjög vel. Krakkarnir voru í miklu stuði og mjög gaman hjá þeim á sviðinu. Þau virðast toppa á réttum tíma,“ segir Þórfríður Soffía Þórarinsdóttir, leikstjóri og aðstoðarskólastjóri sem í níunda sinn stýrir leikverki níunda bekkjar.
Mikil vinna er að baki við sýninguna. Um leið og eitt leikverk er að baki er byrjað að leita að handriti sem hentar næsta bekk. Þórfríður Soffía segist jafnvel fara inn í áttunda bekk strax að vori til að byrja að kanna landslagið. „Þau eru jafnvel orðin spennt strax í sjöunda bekk fyrir hvaða verk þau fái.“
Meðal fyrstu spurninganna sem þarf að svara eru hversu margir nemendur séu tilbúnir að fara á svið. Út frá því er fundið leikverk sem hentar stærð hópsins í samvinnu leikstjórans og bekkjarins. „Oft þarf að búa til hlutverk, einkum þegar um er að ræða stóran leikarahóp eins og núna. Við erum með fjórar löggur, þrjá ræningja og tvo kennara í hverjum bekk.“
Enginn er píndur á svið en nemendur þurfa þá að sinna öðrum hlutverkum við sýninguna, sem eru æri mörg. „Við kennum að leikhúsið er meira en bara leikur. Það þarf til dæmis sviðsmenn. Við finnum öllum verkefni við hæfi. Það er krefjandi að fá heilan bekk til að vinna saman að svona stóru verkefni en þetta verður um leið kennsla í samvinnu og samskiptum.“
Leikverkið er sýnt aftur í kvöld, morgun og loks tvisvar á fimmtudag. Nemendur bekkjarins eru í fríi frá hefðbundnu námi meðal sýningum stendur. „Þau mæta ekki aftur í skólann fyrr en á föstudag. Þau voru líka að um helgina.“
Sýnt er í Egilsbúð og Þórfríður Soffía segir sýningarnar vel sóttar. „Það hefur farið vaxandi að fólk annars staðar en úr Neskaupstað komi. Það er mjög gaman.“
Mynd: Aðsend