Skip to main content
Sem og ávallt fyrr verður ljósmyndasamkeppni í gangi meðan á Dögum myrkurs stendur og hún öllum opin. Mynd: Aðsend

Myrkraverk víða á Austurlandi fram á sunnudag

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 29. okt 2025 10:58Uppfært 29. okt 2025 13:15

Enn eitt árið er hin einstaka austfirska hátíð Dagar myrkurs gengin í garð sem er ávísun á fjölda hryllilegra, en jafnframt forvitnilegra, viðburða víðast hvar allt fram á sunnudaginn kemur.

Þó formlega eigi að heita að hátíðin sú hefjist í dag hefur verið tekið forskot á sæluna á nokkrum stöðum nú þegar en helstu og stærstu viðburðirnir fara fram í dag og næstu dægrin. Sem og verið hefur verður ljósmyndasamkeppni í gangi alla dagana.

Hér er tæpt á því helsta sem í boði verður fyrir unga sem aldna:

Djúpivogur

Heiðmyrkur tekur yfir gömlu kirkjuna milli 17 og 18 í dag en þá reynir aldeilis á ratvísi til að finna leið sína þangað. Áður en lagt er í það ævintýri ættu sælkerar að stoppa í Tryggvabúð því þar verða í dag seldar Skrímslavöfflur sem eru með öllu óvenjulegra yfirbragði en gengur og gerist. Klukkan 16 á morgun hefst dagskrá í Hálsaskógi þar sem hápunkturinn er að leita uppi Töfratré skógarins í þann mund sem myrkrið tekur yfir. Kjósi menn meira myrkur og hroll er Hryllingsbíó í boði klukkan 20 í Hlöðunni á Teigarhorni. Hryllilegt hrekkjavökupartí hefst í Helgafelli 16.30 þar sem fólk gírar sig í gang fyrir grikk eða gott göngu húsa á milli en skömmu síðar hefst líka hið vinsæla Faðirvorahlaupið flugvallarhringinn. Síðar það kvöld verður annað hrekkjavökupartí en að þessu sinni á Faktor brugghúsi þar sem sjálfur jólabjórinn 2025 verður á krana. Veislan á Djúpavogi endar svo á laugardag. Þar fyrst með búningapartíi leikskólabarna klukkan 11 en síðar um daginn, klukkan 18, hefst svo árleg sviðaveislan að Bragðavöllum en þar ívið meira í boði en góðgæti á hlaðborði.

Breiðdalsvík

Í brugghúsi Beljanda verður lifandi tónlist annað kvöld þegar gítarleikararnir Jón Hilmar Kárason og Guðmundur Arnþór leika nýja og notaða tónlist. Börnin á staðnum verða svo klár með vasaljósin sín síðdegis á sunnudag þegar vasaljósa-nammileitin hefst klukkan 17.30.

Stöðvarfjörður

Þegar eru tveir viðburður á Stöðvarfirði að baki með haustsamkomu í Heiðmörk og draugagöngunni sem fram fór í gærkvöldi. Framundan annað kvöld er Kvöldverður eldri borgara þar sem grautarnir, súpurnar og jafnvel bakkelsið er svartara en fólk hefur áður séð en kjósi menn meiri hrylling en svo opnar Draugahús í Sköpunarmiðstöðinni um miðjan dag á laugardag.

Seyðisfjörður

Dreymir þig vel eða færðu martraðir? Þá er ráð að setjast niður á Skaftfell Bistro á föstudag eða laugardag þar sem, samhliða veitingum, fer fram rannsókn um framtíð menningarlífs í bænum. Börnin fara á stjá síðdegis á föstudag og taka grikk eða gott hring hjá þeim er það vilja. Ekki eru útilokað að sjá afturgöngum eða draugum bregða fyrir í drungalegu rými Vélsmiðjunnar laugardaginn klukkan 17. Daginn eftir getur smáfólkið skemmt sér í vasaljósaíþróttaskóla klukkan 10 en klukkustund síðar hefst sunnudagaskólinn og nú með sérstöku myrkraþema.

Vopnafjörður

Kertaljós og kósíheit í sundlauginn fram á kvöld í kvöld sem er ágæt upphitun fyrir Draugahús í félagsmiðstöðinni Drekanum fyrir unga fólkið á morgun. Hinir eldri ættu svo síðar þann dag að njóta Rökkurstundar að Hámundarstöðum kl. 19. Grikk eða gott ganga barnanna hefst klukkan 17 á föstudag. Vasaljósaíþróttaskóli fyrir leikskólabörnin hefst svo klukkan 11 á laugardag meðan bingó í Fossgerði klukkan 21 þann dag gæti heillað þá sem komnir eru meira á aldur. Tónleikar í Kaupvangi síðdegis á sunnudag og allt endar með félagsvist í Miklagarði kl 19.30.

Borgarfjörður eystri

Hrekkjavökubingó í grunnskólanum klukkan 17 í dag en á föstudagskvöldið fá menn góða gesti í formi Leikfélags Fljótsdalshéraðs sem standa fyrir leiklestri á Galdra-Lofti í Bakkagerðiskirkju klukkan 20. Bjórlestin fræga kemur svo í bæinn á sunnudaginn kemur með jólabjóra Blábjargar klukkan 20 en þar innandyra verður hlaðið í bjúgnakvöld að auki.

Fljótsdalshérað

Annað kvöld verður upplestur á Galdra-Lofti í meðförum Leikfélags Fljótsdalshéraðs og á föstudagskvöld klukkan 20 verða lesnar upp þjóðsögur úr Hróarstungu í Geirsstaðakirkju að Litla-Bakka.

Eskifjörður

Villibráðarkvöld föstudags- og laugardagskvöld í Randulffs sjóhúsi undir lifandi tónlist.

Neskaupstaður

Halldór Warén kynnir og spilar efni af glænýrri sólóplötu sinni í Tónspili á laugardagskvöld.

Egilsstaðir

Dögum myrkurs fagnar í Safnahúsinu frá klukkan 16 í dag en hvert safn þar innandyra býður upp á fjölbreytta dagskrá allt frá því að skera út hrekkjavökuluktir úr rófum klukkan 16 í baðstofustemmningu með söng og ljóðum klukkan 18. Klukkan 20 hefst svo Hrekkjavökuratleikur í Tjarnargarðinum og á sama tíma stíga þau Sándor Kerekis og Berglind Halla Kristjánsdóttir á svið í Sláturhúsinu og flytja djassballöður. Annað kvöld  klukkan 19 verða svo ljósin slökkt í Vök Baths og gestir baða sig í myrkrinu. Börnin flakka svo um í grikk eða gott á föstudaginn kemur klukkan 17 áður en viðburðum lýkur með tónleikum Halldórs Warén í Tehúsinu klukkan 20.