Morðcastið styrkir mannúðarstarf í Palestínu
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 17. sep 2025 17:17 • Uppfært 17. sep 2025 17:18
Morðcastið hefur ákveðið að gefa áskriftartekjur sínar í september til mannúðarstarfs í Palestínu. Stjórnandi hlaðvarpsins segir hræðilegt að horfa upp á fréttir þaðan og fékk innblástur frá dönsku fyrirtæki.
„Allar áskriftatekjur okkar í september renna óskertar til UNICEF (Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna), eyrnamerktar í aðstoð við börn í Palestínu,“ segir Unnur Arna Borgþórsdóttir sem heldur hlaðvarpinu úti ásamt systur sinni, Bylgju.
Hún segir fyrirmyndina fengna frá dönsku prjónafyrirtæki sem reglulega gefur sölutekjur sínar til góðgerðamála. „Þetta fyrirtæki er með ákveðna daga þar sem allar tekjur frá þeim degi renna óskertar til ákveðins málefnis. Þar kviknaði hugmyndin.“
Unnur Arna var meðal þeirra sem stóðu að mótmælafundi gegn hernaði í Palestínu á Egilsstöðum nýverið undir yfirskriftinni „Þjóð gegn þjóðarmorði.“ Hún var þar fundarstjóri og las ávarp frá íbúa í Palestínu.
Hún segir erfitt að sitja undir þeim fréttum sem berast þaðan daglega. „Þetta hefur verið hræðilegt. Þetta eru orðnir yfir 700 dagar af þjóðarmorði sem er sturlað að við horfum á nánast í beinni.
Þess vegna fórum við að hugsa um hvað væri það minnsta sem við gætum gert. Við erum að koma aftur úr smá fríi og fannst rétt að taka fyrsta mánuðinn eftir það í þetta.“
Hún segir viðbrögð áskrifenda Morðcastsins vera jákvæð. „Við eigum afar góðan og dyggan hóp áskrifenda sem hefur tekið vel í þetta. Við opnuðum meira að segja sérstakan reikning því fólk vildi styrkja aukalega.“