Skip to main content

Minjar um mannabústað frá því um 1100 lengst inni á Brúaröræfum

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 03. sep 2025 16:52Uppfært 04. sep 2025 16:59

Fornleifafræðingar skoðuðu í fyrrasumar rústir bygginga í Fagradal á Brúaröræfum, sem virðast vera frá því um 1100. Fornleifafræðingar segja byggingarnar benda til þess að skömmu eftir landnám á láglendi hafi fólk verið komið langt inn á öræfi að tryggja sér land.


„Þetta er frá því fyrir árið 1158 í það minnsta, trúlega á milli 1000 og 1100,“ segir Indriði Skarphéðinsson, fornleifafræðingur hjá austfirska fornleifafræðifyrirtækinu Sagnabrunni, sem gerði fyrstu eiginlegu rannsóknirnar á rústunum í fyrra.

Um er að ræða fjögur hús sem virðast vera þrjú minni hús og eitt stærra hús eða skáli þar sem fólk hefur haldið til í lengri eða skemmri tíma. Rústirnar vöktu fyrst athygli árið 2011 þegar Skarphéðinn Þórisson, faðir Indriða, sá þær úr lofti. Þær eru nefndar „Skarphéðinstóftir“ eftir honum.

Grónara áður fyrr?


Fagridalur er meðal svokallaðra Brúardala, í um 30 km fjarlægð í loftlínu frá bænum Brú á Jökuldal. Þar eru fleiri búsetuminjar, meðal annars smalabyrgi frá því um 1900. „Þetta er ótrúlega merkilegt svæði út frá gróðurfari, alls staðar í kring er urð og sandur en þarna er gróðurvin,“ segir Indriði.

Indriði hefur rýnt í eldri heimildir um svæðið og nýtingu þess sem benda til þess að þar hafi áður verið grónara, jafnvel verið stundaður seljabúskapur.

Ásókn í fugla?


Indriði segir að tóftir sem þessar, langt inni á öræfum í um 600 metra hæð, segi ákveðna sögu um landnámið og lifnaðarhætti þess tíma. Fornleifafræðingar hafa meðal annars viðrað þær kenningar að menn hafi verið að tryggja sér landssvæði til notkunar með að reisa þar sel.

Það þýði að eitthvað hafi verið á svæðinu sem virði var talið, til dæmis álftir og gæsir sem voru veiddar til matar. „En svo er líka talað um að landið sé fullsetið 60 árum eftir landnám, sem manni finnst ótrúlegt í dag, en það þýðir að það er fullnýtt.“

Heillegar minjar


Indriði segir tóftirnar vera í góðu ástandi. Stærsta tóftin, skálinn, er 11 metra löng og fimm metra breið. „Hún stóð svo upp úr landslaginu að við héldum að hún væri jafnvel yngri en það kom annað í ljós þegar við fórum að grafa í þær.“

Sýna gangverk samfélagsins


Indriði segir að rannsóknir á svæðinu myndu bæta við þekkingu á þróun Austurlands upp úr landnámi. Þær veiti líka upplýsingar um ferðir á fyrri tíðum um öræfi og yfir Vatnajökul.

„Það eru þekktar leiðir, menn fóru í ver suður í Lóni. Brúarjökull er stærsti skriðjökull landsins en hafi hann verið innar, sem og Vatnajökull, þá er mikið svæði frá Kverkfjöllum að Snæfelli sem er greiðara yfirferðar og hægt að nýta til beitar, hafi það verið gróið. Það er vitað að Möðrudælingar áttu viðartekju í Skaftafelli og Skaftfellingar hrossabeit í Möðrudal. Þessar ferðir virðast mikið hafa lagst af á 15. öld eftir svarta dauða og eldgos.“

Stærsta tóftin í Fagradal. Mynd: Indriði Skarphéðinsson

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.