Skip to main content

Mikilvægt að vinnustaðurinn bjóði hinsegin fólk velkomið

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 01. okt 2025 16:58Uppfært 01. okt 2025 16:59

Innan Alcoa samsteypunnar á heimsvísu er lögð áhersla á jafnrétti, til að mynda í gegnum fjóra sérstaka réttindahópa sem starfa bæði þvert á fyrirtækið og innan einstakra eininga. Einn þessara hópa er EAGLE sem leggur áherslu á jafnrétti hinsegin fólks. Leiðtogi stýrihóps EAGLE hjá Alcoa Fjarðaáli segir það vera mikilvægt fyrir starfsfólk að finna fyrir öryggi gagnvart persónuleika sínum á vinnustaðnum.


EAGLE er skammstöfun sem stendur fyrir „Employees at Alcoa for LGBTQ+ Equality“ eða „Starfsfólk Alcoa fyrir jafnrétti hinsegin fólks“. Slagorð hópsins er að fjölbreytnin geri teymið sterkara og hann stendur fyrir viðburðum og verkefnum sem auka virðingu fyrir fjölbreytileika og tækifæri fólks úr hinsegin samfélaginu.

Innan Alcoa-samsteypunnar er alþjóðlega hinsegin mánuðinum í júní fagnað með ýmsum viðburðum og álverið á Reyðarfirði er engin undantekning á því. „Við vekjum þá athygli á réttindabaráttu hinsegin fólks með ýmsum hætti, flöggum regnbogafánanum víða, málum gangbrautir og fleira í regnbogalitunum, bjóðum starfsfólki upp á regnbogaköku og fleira. Við fórum um álverið með sjálfuramma og margir voru til í að vera með í honum með sprell og gaman.

Ég held að það skipti máli að baráttan sé ekki of alvarleg því þannig hefur hún breyst. Fyrst var íslenska hinsegin samfélagið með kröfugöngu þar sem 100-200 manns gengu Laugarveginn, síðan kom Gleðigangan og eftir það hefur ekkert stoppað okkur.

Fyrirtækið styður líka baráttuna með styrkjum til einstakra verkefna og samtaka. Síðan eru EAGLE hóparnir innan samsteypunnar með sameiginlegt spjallsvæði, þar sem þeir deila því sem þeir eru að gera,“ segir Benedikt Jónsson, svokallaður aðalörn Fjarðaáls.

Eigandinn ætlaði ekki að ráða homma í vinnu


Benedikt segir það vera mikilvægt að vinnustaðir taki vel á móti fólki með fjölbreyttan bakgrunn. Hann fluttist austur á Breiðdalsvík með manni sínum og fékk fyrst vinnu hjá Eimskipi en síðan hjá Alcoa Fjarðaáli, þar sem hann hefur verið undanfarin sjö ár.

„Ég hafði ekki unnið hjá svona stórum fyrirtækjum áður og allt í einu þurfti ég að fara að skrifa ferilskrá. Þar kom að því að ég þurfti að setja inn fjölskylduhagi og það segir kannski sitt um mig að mér fannst sérkennilegt að tala um mig og manninn minn sem fjölskyldu, þótt við hefðum búið saman í 14 ár.
Ferlið hjá Alcoa var æðislegt. Það var enginn fókus á þetta, sem mér finnst fínt því ég er ekki að fókusa á að ég sé samkynhneigður. Ég gæti aldrei unnið hjá fyrirtæki ef ég væri Benni hommi – ég er miklu meira en það.

Það er alltaf ógnvekjandi að skipta um vinnu og að koma inn á nýjan vinnustað. Á vinnustaðnum hef ég aldrei lent í neinu neikvæðu eða veseni. En kerfið hjá Alcoa er þannig að ef eitthvað kemur upp á hef ég bakland til að sækja í. Ég hef ekki þurft að nota það en það er þægilegt að hafa það. Alcoa heldur vel utan um þessa hluti. Það er staðreynd.“

Tímarnir breytast og undanfarin ár hefur vitund aukist um stöðu transfólks í samfélaginu. Hjá Alcoa voru, eins og víðar, staðlaðir búningsklefar karla og kvenna en það er verið að endurskoða, meðal annars með liðsinni EAGLE. „Við sjáum að það þarf sérstaka klefa. Ég hefði verið til í að sjá það gerast hraðar en stundum gerast hlutirnir hægt hjá svona stóru fyrirtæki. Þetta er að koma.“

Réttindin eru aldrei örugg


Í nýlegu viðtali við Morgunblaðið í sumar sagði Fernando Costa, forstjóri Alcoa Fjarðaáls, að hann hefði fengið spurningar á þessu ári um það hvort Alcoa, sem er bandarískt fyrirtæki, hafi dregið úr áherslu sinni á jafnrétti, í ljósi vendinga í bandarískum stjórnmálum. Hann svaraði að svo væri ekki. Benedikt fagnar því að Alcoa taki þessa afstöðu. „Mér finnst það aðdáunarvert og ég er stoltur af því,“ segir Benedikt.

Breytt stefna Bandaríkjastjórnar er hluti af því bakslagi sem hinsegin fólk víða, þar með talið á Íslandi, talar um. Benedikt tekur undir áhyggjur af þróuninni. „Ég upplifi aftur gamlar tilfinningar frá þessum árum sem við vorum að öðlast réttindi, eins og hjónabandið.

Það rifjast upp fyrir mér orð um að réttindin séu ekkert örugg, þau séu bara að láni. Sagan hefur sýnt það, samkynhneigðir hafa áður fengið vægi innan samfélaga sem hefur síðan verið tekið af þeim aftur. Þetta sýnir okkur að það er ekkert öruggt. Það sem við sjáum í Bandaríkjunum getur komið hingað. Heimurinn er orðinn þannig.”

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.