Mikilvægt að sjá viðbrögðin beint frá kúnnanum

Ölstofa Asks á Egilsstöðum hefur vakið nokkra athygli síðan hún var opnuð í byrjun apríl. Þar eru lögð áhersla á afurðir Austra brugghúss sem er í sama húsnæði. Bruggmeistarinn segir nándina góða til að styrkja sambandið við viðskiptavinina.

„Það er mjög gott fyrir kúnnann að hafa nánd við vöruna. Við tökum á mótum hópum sem geta skoðað brugghúsið, séð tækin og tólin, og fengið fræðslu um allt framleiðsluferlið.

Við sjáum líka framan í kúnnann þegar hann smakkar vöruna og fáum viðbrögðin strax,“ segir Friðrik Bjartur Magnússon sem stýrir brugguninni og rekur Ölstofuna. Litið var inn á Ölstofunni í þættinum Að Austan á N4 í gærkvöldi.

Friðrik Bjartur segir vinsældir hverfisbrugghúsa hafa aukist síðustu árin og á Íslandi hafi þeim skotið upp eins og gorkúlum síðustu fjögur ár. Íslensku handverksbrugghúsin, sem orðin eru 23 talsins, hafa með sér samstarf og gáfu í fyrra út kort fyrir áhugasama ferðamenn sem vilja ferðast um og kynnast mismunandi brugghúsum.

Flest leggja á einn hátt eða annan áherslu á sérstöðu síns svæðis. Austri gerir það bæði með vörumerkjum sínum og bragðtegundum. Fyrir jól sendi brugghúsið frá sér Skessu, sem gerður er úr wasabi laufum úr framleiðslunni í Fellabæ sem er einsdæmi í Evrópu.

„Við prófum alls konar nýja hluti og fáum hráefni úr nágrenninu. Það er gaman að búa til eitthvað nýtt því maður veit aldrei nákvæmlega hvað verður úr. Við reynum að fylgjast með bjórmenningunni, bæði á Íslandi og í heiminum, og sjá hvað vantar eða hvar er gott að koma inn.“

Bjórar Austra heita eftir austfirskum fjöllum sem einnig skreyta flöskurnar. Inni í þeirri línu er Harðskafi, þorrabjór Austra 2019, sem kynntur verður til sögunnar á þorrakvöldi á laugardag.

Nándin við viðskiptavinina býður einnig upp á að þeir geti komið sínum hugmyndum á framfæri beint við bruggarann. „Við fáum alls konar hugmyndir misgóðar, yfirleitt fleiri eftir sem líður á kvöldið!“ segir Friðrik Bjartur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.