Skip to main content

Metfjöldi á Skógardeginum mikla – Myndband

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 24. jún 2025 16:09Uppfært 24. jún 2025 16:10

Áætlað er að 2.500 manns hafi mætt í Hallormsstaðaskóg á laugardag þar sem Skógardagurinn mikli var haldinn. Segja má að dagurinn hafi náð tilgangi sínum því honum er ætlað að fá fólk til að koma og kynnast skóginum.


„Við höfum engin mælitæki en við sjáum fjöldann á bílastæðunum. Þegar mest lét var bílaröð í báðar áttir á þjóðveginum. Til þessa höfum við miðað við að 1.800-2.000 manns hafi mætt á daginn,“ segir Þór Þorfinnsson, skógarvörður á Hallormsstað.

Þrátt fyrir allan þennan fjölda, þar sem bílastæðin við Mörkina yfirfylltust, gekk umferðin óhappalaust, eftir því sem næst verður komist.

Dagurinn lukkaðist líka vel en í boði voru meðal annars tónlistaratriði á sviði og kynning á framleiðslu úr skógarafurðum, að þessu sinni frá Tandrabrettum. Dagskráin byrjaði með forkeppni Íslandsmótsins í skógarhöggi og lauk með úrslitunum. Sigfús Jörgen Oddsson frá Staffelli í Fellum sigraði að þessu sinni en þetta er hans annar titill.

Náttúruskólinn var einnig með leiki í boði fyrir börnin en þar var mikill fjöldi. „Það byrjaði á hádegi og fjölskyldur mæta í það. Við tókum eftir því að það voru óvenju margir komnir á svæðið klukkan 13 þegar aðaldagskráin byrjaði, sem er yfirleitt ekki.“

Maturinn kláraðist


Maturinn sem er á boðstólnum dregur fólk alltaf í skóginn en meðal annars er heilt naut grillað. „Þarna var lambakjöt, pylsur og svínakjöt. Mest allt sem var í boði kláraðist, sem er jákvætt. Meira að segja nautið kláraðist. Það hefur ekki gerst áður,“ segir Þór.

Skógarbændur og skógræktarstofnanir standa að baki deginum með stuðningi nauta- og sauðfjárbænda. „Við gætum aldrei haldið daginn án tuga sjálfboðaliða frá þessum aðilum. En það var gaman að fá allt þetta fólk í skóginn, enda er það markmið dagsins að fólk kynnist skóginum og hitti skógarbændur og aðra.“