Skip to main content

Merki Vopnafjarðar valið norrænt sveitarfélagsmerki ársins

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 11. des 2024 10:48Uppfært 11. des 2024 10:50

Norræn áhugamannasamtök um skjaldarmerkjafræði sem árlega kjósa norrænt sveitarfélagsmerki ársins völdu fyrir skemmstu merki Vopnafjarðarhrepps sem merki þessa ársins.

Tók sveitarstjórinn, Valdimar O. Hermannsson, formlega mót sérstökum verðlaunagrip og viðurkenningarskjali vegna þessarar upphefðar en það er meðlimir í félagsskapnum Societas Heraldica Scandinavica sem kjósa um merki ársins hverju sinni.

Helsti tilgangur slíkra verðlauna er að heiðra norræn sveitarfélög sem nota merki sitt til prýði en jafnframt er litið til skjaldfræðilegrar útfærslu merkjanna.

Vopnafjarðarmerkið fær mikið hrós fyrir einfaldleika og skýra tengingu sína við sögu frá miðöldum. Telja samtökin að með merkinu tengi Vopnafjörður arfleifð íslenskra fornsagna og táknmálshefð skjaldarmerkjafræðinnar og eigi skilið nafngiftina Norræna sveitarfélagsmerki ársins.

Núverandi útfærsla merkis Vopnafjarðar er aðeins fjögurra ára gömul en blái litur merkisins vísar til hafs og fjalla meðan drekinn vísar til frásagnar Heimskringlu um fjölkunnugan njósnara Danakonungs sem kom til Vopnafjarðar en þar mætti honum þá dreki mikill svo ekkert varð af njósnum.

Sveitarstjóri Vopnafjarðar, Valdimar O. Hermannsson, tekur við viðurkenningunni úr höndum Halldórs Baldurssonar, fulltrúa og stjórnarmanns í Societas Heraldica Scandinavica. Mynd Hilmar Þór Norðfjörð