„Mér finnst að fólk þurfi að heyra meira um Stöðvarfjörð“
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 30. maí 2025 16:46 • Uppfært 30. maí 2025 16:48
Dominika Janus hefur búið í stórborgum eins og Seúl og Singapúr, stundað nám í fimm löndum og sérhæft sig í stýrifræði, netöryggi og sjálfbærni. Nú hefur hún valið sér heimili í 200 manna samfélagi á Stöðvarfirði þar sem hún vinnur að orkuskiptum, rekur gamla kirkju og brennur fyrir framtíð austfirska samfélagsins.
Heimsborgarinn sem fann heimili í litlum firði
Heimilið hennar á Stöðvarfirði, fullt af húsplöntum, bókum og gömlum húsgögnum, endurspeglar forvitni hennar og fjölbreyttan smekk. Fyrir konu sem hefur búið í stórborgum víðsvegar um heiminn mætti ætla að Stöðvarfjörður væri of lítill, en Dominika er ástfangin af staðnum. Hún býr þar ásamt eiginmanni sínum, Krzysztof, og border collie-hundinum þeirra, Miso. „Ég hef lært og reynt svo margt, en ég vil samt meira, skilurðu? Ég held að það muni ekki breytast, jafnvel þegar ég verð sextug," segir hún og hlær.
Í lok síðasta árrs sneri Dominika aftur úr eins árs meistaranámi í stýrifræði við Australian National University í Canberra. Nú starfar hún sem verkefnastjóri hjá Eygló, rekur Tiny Church á Stöðvarfirði og vinnur að þriðja verkefninu, Templaranum á Fáskrúðsfirði.
„Ég elska Ísland. Við eigum heimili hér og við erum með frábæran rekstur sem er rétt að byrja og við erum spennt fyrir. Ég er líka mjög spennt fyrir Eygló og öllu sem ég læri um íslenska orkugeirann,“ segir Dominika af miklum áhuga.
Frá pólskri menningarhöfuðborg til heimshorna
Dominika ólst upp í Wrocław, borg hinna hundrað brúa, með pólskar, tékkneskar, þýskar og prússneskar arfleiðir. Hún leggur áherslu á að hún komi ekki frá auðugri fjölskyldu, þrátt fyrir að hafa notið djasshátíða, kvikmyndahátíða og auðugs menningarlífs í uppvexti sínum.
„Þegar þú hittir fólk frá Wrocław segir það alltaf að þetta sé fallegasta borgin í Póllandi. Fólk frá öðrum svæðum gerir grín að okkur og segir að við látum borgina og allt svæðið Neðri-Slesíu hljóma eins og besta hluta Póllands," segir Dominika og hlær.
Hún fór ekki frá Wrocław til að flýja, heldur vegna löngunar til að upplifa eitthvað nýtt. „Ég geri mér grein fyrir því að Pólland er ekki fyrir alla. En við getum sagt það um hvaða land sem er. Ég held að ég hafi bara viljað meira. Mig hungraði í nýja þekkingu," segir hún ákveðin.
Menntavegferð um fimm lönd
Eftir menntaskóla hóf hún lífverkfræðinám, í gríni segir hún að það hafi verið vegna aðdáunar á Star Wars. Fljótt skipti hún þó yfir í Asíufræði og tryggði sér námsstyrki til Suður-Kóreu og Taívan. Í Kóreu lærði hún opinbera stjórnsýslu og í Taívan kínversku.
„Frá Taívan flutti ég til Singapúr til að læra stefnumótun, í grundvallaratriðum hernaðar- og öryggisfræði. Ég endaði á að læra óhefðbundin öryggismál, hernaðargreind, orkuöryggi, nýsköpun í hernaði, ásamt netöryggi."
Næst hélt hún til Svíþjóðar. „Ég lærði hagnýta siðfræði með áherslu á gervigreind. Þarna varð ég fyrst áhugasöm um sjálfbærni. Menntunin snerist svo mikið um gervigreind og nýja tækni, sem leiddi óhjákvæmilega til spurninga eins og: Hvað knýr þetta áfram? Hver borgar fyrir orkuna?"
Í lok árs 2023 fór Dominika til Ástralíu í eins árs meistaranám í stýrifræði. „Ég myndi segja að það hafi verið gagnlegasta notkunin á akademískum bakgrunni mínum. Hún rannsakar samskipti á milli manna, umhverfis og tækni."
Eygló: Orkuskipti og sjálfbærni á Austurlandi
Dominika talar af miklum eldmóði um starf sitt hjá Eygló, verkefni sem var sett á laggirnar af Landsvirkjun, Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, Austurbrú og sveitarfélögum á Austurlandi. Markmið verkefnisins er að draga úr kolefnisfótspori Austurlands.
„Við höfum skýrslur um kolefnisfótspor fyrir hvert svæði. Hjá okkur kemur töluvert af CO₂ og öðrum gróðurhúsalofttegundum frá landbúnaði. En við erum líka með mikið af votlendi sem bindur kolefni. Þannig að í heildina, hér fyrir austan, er ástandið ekki hræðilegt. En við getum gert betur," útskýrir hún.
Eygló tengir fólk, fyrirtæki, sveitarfélög, frjáls félagasamtök og háskóla til að bæta lífið á Austurlandi. „Við erum með mjög gott tengslanet. Þegar við heyrum af fólki sem gæti haft áhuga á ákveðnum lausnum eða stendur frammi fyrir vandamálum sem við vitum að við getum tekið á með því að tengja þau við aðra, þá gerum við það."
Tiny Church: Ný menningarmiðstöð á Stöðvarfirði
Í lok síðasta árs keypti Dominika ásamt hópi vina gömlu kirkjuna á Stöðvarfirði, sem var afhelguð árið 1991 og hafði verið rekin sem gistiheimili. „Fyrri eigendur gáfu okkur gömlu gestabækurnar og það er svo sætt að sjá þessa löngu og samfelldu sögu. Við ætlum okkur, í anda sjálfbærrar ferðaþjónustu, að innleiða fleiri lausnir til að spara orku."
Auk gistingar hafa þau fengið styrk fyrir menningarstarfsemi. „Við fengum styrk fyrir mjög skemmtilegu verkefni, sem felur í sér nokkra litla tónleika - því kirkjan er mjög lítil. Þeir verða teknir upp og birtir á netinu, á samfélagsmiðlunum okkar. Ég held að kirkjur séu fullkomin rými með mjög góðum hljómburði."
Að gefa til baka til samfélagsins
Eftir ár í námi og ferðalögum á milli landa og heimsálfa, hefur Dominika komist að þeirri niðurstöðu að það að gefa til baka til samfélagsins sé það sem skiptir mestu máli.
„Ég vil trúa því að hvað sem ég læri, geti ég nýtt í þágu samfélagsins. Ég held að annars sé algjörlega tilgangslaust að læra eitthvað ef þú getur ekki notað það til að gera hlutina betri fyrir fólk. Í stærra samhengi snýst það um að beita meginreglum hringrásarhagkerfisins, sem leiða til meiri skilvirkni: að spara orku, gera fólki kleift að vinna léttari vinnu, og vinna af meiri útsjónarsemi en ekki meira erfiði."
En það virðist vera sem Dominika sé mest ástfangin af Stöðvarfirði og möguleikum hans. „Ég finn einlæglega fyrir því að ég eigi hér heima. Fólkið er frábært. Nágrannar okkar eru frábærir. En þetta er lítið samfélag, og það er virkilega að missa fólk. En þessi staður hefur möguleika. Hann hefur möguleika fyrir fjarvinnu. Útsýnið er stórkostlegt. En ég held að fólk þurfi að heyra af okkur.
Við erum beint við þjóðveg eitt, en jafnvel Íslendingar vita í raun ekki mikið um okkur. Það er áhugavert er að við erum ein elsta víkingabyggðin. Ég myndi elska að fólk fræddist meira um það og hugsaði um þetta litla þorp. Það hefur sjarma sinn sem lítill staður, en ég held samt að við gætum tekið á móti fleiri einstaklingum - ef þeir vissu bara hversu frábært þetta er."
Mynd: Marko Umicevic
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.