Menntaskólinn hentaði ekki, draumarnir gerðu það
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 29. ágú 2025 18:04 • Uppfært 29. ágú 2025 18:04
Þóra Jóna Þórarinsdóttir er aðeins á tuttugasta aldursári en hún hefur þegar náð athyglisverðum árangri í viðskiptalífi Austurlands. Ásamt kærasta sínum, Gabríel Arnarssyni, rekur hún þrjú fyrirtæki, hefur snúið við rekstri líkamsræktarstöðvar, selt netverslun með hagnaði og nýlega opnað gistiheimili á Egilsstöðum. Fyrir aðeins tveimur árum var hún enn í Menntaskólanum á Egilsstöðum.
„Ég man ég var á öðru ári í menntaskóla. Ég var í afmæli og það var strákur sem ældi yfir bakið á mér. Þá hugsaði ég að þetta toppaði bara allt, ég fékk skyrtu hjá stelpunni sem var að halda afmælið og strunsaði beint upp í Austur að hjálpa Gabríel að mála og brjóta niður veggi."
Gabríel hafði nýlega keypt hlut í líkamsræktarstöðinni Austur. Stöðin hafði gengið í gegnum erfiða, meðal annars Covid-tímann þar sem slíkar bjuggu við miklar takmarkanir. Nýi eigendahópurinn gekk í að rífa hana upp. Á stuttum tíma fóru meðlimir í stöðinni úr 67 í yfir 400 og fyrirtækið varð skuldlaust.
Árangur með Lenu verslun
Árið 2023 keyptu þau hlut í netversluninni Lenu, sem selur húð-, hár- og snyrtivörur. Þóra tók strax að sér markaðsmálin og lærði starfið á hlaupum. „Ég hafði aldrei gert neitt svona áður, ég gat ekki sagt ég kann þetta ekki," segir Þóra, sem náði að koma vörunum í verslanir eins og Hagkaup, Heimkaup og flestar helstu snyrtivöruverslanir landsins.
Þóra leggur mikla áherslu á sýnileika í markaðsstarfinu. „Það sér enginn að birgðastýringarkerfið okkar er í rugli. Það sér enginn að við erum að panta, það sér enginn að við séum að senda tölvupóst á birgja eða fyrirtækin sem við viljum taka inn vörur hjá. Fólk sér miklu meira efnið frá okkur."
Hún vann með áhrifavöldum og lagði mikla vinnu í að taka fallegar myndir og myndbönd. „Ég gerði alltaf meira en ég þurfti. Ég var kannski með fullan poka af húðvörum og stóð úti í skógi að taka myndir og myndbönd af nýjum vörum í náttúrunni."
Í janúar seldu þau Lenu verslun eftir að hafa fengið kauptilboð sem þau gátu ekki hafnað.
Glans og East Guesthouse
Glans, stofnað í apríl 2024, er nú aðalvinna Þóru. Fyrirtækið sinnir veisluþjónustu, heildarumsjón og verðstýringarkerfi fyrir gististaði eða íbúðir í skammtímaleigu. „Það má segja að við séum algjörir þúsundþjalasmiðir, ef það eru einhver verkefni sem þarf að gera þá oftar en ekki segjum við já."
Þegar þau voru í fríi á Kanarí síðasta haust fengu þau tækifæri til að kaupa gistiheimili á Egilsstöðum. Nýjasta verkefnið þeirra er því East Guesthouse með fimm herbergjum. Þóra segir þau ekki hafa sparað við innréttingar, keypt góð rúm, sjónvörp með streymisveitum og vandaða kaffivél. Persónuleg þjónusta er þeim mikilvæg.
Fyrst og fremst ástfangið par
Þóra og Gabríel vinna meira en 100% vinnu að eigin sögn, en slaka þó af í Vök náttúruböðum tvisvar í viku og með gönguferðum með hundinn. Þau reiða sig mest á hvort annað: „Við erum fyrst og fremst ástfangið par. Svo lengi sem við höldum því rennur allt hitt smurt."
Framtíðaráform þeirra eru að halda áfram að eignast fyrirtæki, hagræða og selja, en færa sig hægt og rólega yfir í fasteignir. „Eignast meira af einhverju sem kemur til með að rúlla og skapar tekjur án þess að það séu margar vinnustundir þar að baki."
Tækifæri á Austurlandi
Þóra ráðleggur ungum frumkvöðlum að hugsa um sjálfan sig og vita hvað þau standa fyrir. „Ef maður hugsar ekki um sjálfan sig er ekki hægt að gefa af sér." Hún bendir á að kanna styrkjamöguleika, eins og uppbyggingasjóði í hverju landshluta.
Þóra sér mikil tækifæri á Austurlandi. „Þetta er gríðarlega arðbær landsfjórðungur og mikilvægt er að fólk geti líka eytt peningnum í hann." Hún vill vera hluti af því að byggja upp Egilsstaði og gera bæinn að enn betri stað.
Viðtalið er hluti af samstarfsverkefni Austurgluggans, Víkurfrétta og Skessuhorns við nám í blaðamennsku við Háskóla Íslands.
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.