Menntaskólinn á Egilsstöðum í átta liða úrslit Gettu betur
Keppendur Menntaskólans á Egilsstöðum (ME) halda áfram góðri vegferð sinni í hinni vinsælu spurningakeppni Gettu betur en í gærkvöldi tryggði liðið sig áfram í átta liða úrslit keppninnar.
Menntskælingarnir frá Egilsstöðum slógu að þessu sinni út lið Verkmenntaskólans á Akureyri með 18 stigum gegn 14 en um var að ræða fyrri keppnisdag af tveimur í sextán liða úrslitum Gettu betur sem fram fór á Rás 2. Í fyrstu umferð keppninnar hafði ME betur gegn Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra með stórum 24 gegn 9 sigri.
Hver andstæðingur ME verður í átta liða úrslitunum mun liggja fyrir að lokinn síðari umferð sextán liða úrslitanna sem fram fara annað kvöld. Það liggur hins vegar fyrir að þau Embla Fönn, Sigvaldi Snær og Steinar munu þar etja kappi í sjónvarpssal. Mun þetta vera í fyrsta skiptið um átta ára skeið sem ME tekst að komast svo langt.
Þremenningarnir úr ME lagt tvo keppninauta af velli nú þegar en róðurinn mun þyngjast í framhaldinu. Mynd Rúv / Herdís Sigurðardóttir Busson