Skip to main content

Með rísandi sól rís viðburðalífið líka

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 21. mar 2025 13:22Uppfært 21. mar 2025 14:00

Austfirðingar flestir verið heppnir með tiltölulega kyrran, hlýjan og merkilega sólríkan marsmánuð það sem af er og samkvæmt spá Veðurstofu Íslands verður svo aðeins lengur þó hitastigið lækki lítið eitt. Því tilvalið að setja betri fótinn undir sig og taka inn ráðlagðan skammt af menningu og uppákomum næstu dægrin.

Aukið menningarlíf fer oftar en ekki í hendur saman við hækkandi sól ár hvert og nú um helgina og reyndar eftir hana er eitt og annað skemmtilegt í boði.

Grínarinn Pétur Jóhann Sigfússon hefur þegar valdið alvarlegum hlátursköstum víða austanlands með uppistandi sínu en hann er ekki búinn enn því á morgun treður hann upp á Fáskrúðsfirði. Sjálfur lýsir hann uppistandi sínu sem ruglingslegra en að reyna að útskýra útreikninga á skattframtalinu fyrir afa sínum.

Hróður DJ Nonna litla hefur borist víða og hann ætlar að skemmta fólki á Aski Taproom á Egilsstöðum annað kvöld. Ekki ólíklegt að X-kynslóðin njóti tónlistar kappans meira en aðrir því það verður 90s stemmning frá A til Ö.

Þó það kannski ekki tengist menningu beint þá heldur Hraundís Guðmundsdóttir tveggja daga vinnustofu um framleiðslu ilmkjarnaolía í Hallormsstaðaskóla mánu- og þriðjudag og áhugasamir hafa enn kost á að skrá sig til þátttöku.

Þá boðar sveitarfélagið Fjarðabyggð íbúa Eskifjarðar til íbúafundar á mánudagskvöldið í grunnskólanum þar sem kynna skal framkvæmdir vegna ofanflóðamannvirkja við Grjótánna.

Síðast en ekki síst hefur Safnahúsið á Egilsstöðum framlengt um vikutíma fræ- og plöntuskipamarkaðsbanka sinn . Þar gefst fólki með græna fingur tækifæri til að komast í ýmis konar fræ eða afleggjara sér að kostnaðarlausu svo lengi sem fólk kemur með fræ á móti sem það sér ekki tækifæri til að nýta.