„Með glúten í æðunum“
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 06. maí 2025 15:49 • Uppfært 06. maí 2025 15:50
Á Borgarfirði hefur Karolina Plontka verið að byggja upp örbakarí undir merkinu „Góðan deig“. Hún hefur nú hafið sölu brauðsins í áskrift á Egilsstöðum. Hún kom til Borgarfjarðar frá Póllandi fyrir fjórum árum en í heimalandinu starfaði hún lengst af við fasteignaviðskipti.
„Ég segi stundum að ég sé ekki með blóð heldur glúten í æðunum. Ég hef alltaf verið hugfangin af brauði. Kannski var ég aðeins farin að sakna þess að hafa ekki bakarí á hverju götuhorni en mig langaði líka að sjá hvernig fólkið hér myndi bregðast við.
Ég fann líka að mér leið vel við baksturinn. Mér fannst hann róandi. Að finna ilminn af nýbökuðu brauði á dimmum vetrarmorgni og geta síðan borðað það var dásamlegt.
Þannig lýsir Karolina því hvernig það kom til að hún fór að baka súrdeigsbrauð fyrir sig og gefa fólkinu á Borgarfirði með sér. Hún segir Borgfirðinga fljótt hafa komist á bragðið, að þarna væri eitthvað annað og meira en þeir væru vanir að kaupa í dagvöruverslunum.
Fjallgöngur og bakstur
Vinsældirnar urðu slíkar að Karolina ákvað að sækja um leyfi til að hún gæti selt afurðir sínar og hefur sótt matarmarkaði síðustu misseri. Hún hefur nú bætt við og síðan í mars hefur hún borðið fólki að kaupa súrdeigsbrauð og fleiri bakstursvörur af sér í áskrift, allt að vikulega.
„Þar sem ég er ekki lærður bakari er ég alltaf að læra og prófa mig áfram. Ég er enn að öðlast meira sjálfsöryggi og ná meiri stöðugleika í baksturinn. Ég á líka eftir að sjá hvernig viðtökurnar verða og svo verð ég að laga mig að þeim næstu mánuði.“
Karolina ætlar að gefa sér tíma til að byggja upp bakaríið. Hún hefur hliðarbúgrein, sem er leiðsögn fyrir gönguhópa á sumrin. „Mér finnst líka frábært að fara í fjallgöngur, þannig að vonandi næ ég að sameina þessi tvö áhugamál.
„Góðan deig“
Nafnið á bakaríinu „Góðan deig“ er orðaleikur hjá Karolinu sem hefur lært nokkra íslensku. Hún leikur sér líka í myndmerkingum bakarísins, þar eru gjarnan kindur sem segja „baaakery“ þar sem jarm kinda er yfirleitt skrifað „baa“ á ensku.
„Að bjóða góðan daginn var eitt það fyrsta sem ég lærði á íslensku. Þegar ég fór að nefna bakaríið fór ég að hugsa hvort ég ætti að sækja í enskuna, en mér fannst skipta máli að vera með íslenskt nafn. Mér fannst það rétt skref í því að markmiði mínu að verða hluti af samfélaginu hér.
En partur af því að verða hluti af samfélaginu hér er að ég hef tekið þátt í að smala kindum hvenær sem ég get og mér finnst gaman að leika mér með orð, þannig að allt í einu small þetta.“
Hagfræðingur sem fékk leið á skrifstofuvinnu
Karolina fyrst til Íslands árið 2018 og vann það sumar í ferðaþjónustu á Suðurlandi. Eftir það langaði hana að sjá meira af Íslandi og réði sig því austur á Borgarfjörð og heillaðist af staðnum. Hún er annars fædd í Póllandi og fór í háskóla í Kraká þar sem hún lærði hagfræði með sérhæfingu í fasteignaviðskiptum. Hún starfaði í fjármálageiranum en fann sig ekki þar.
„Það rann upp fyrir mér að ég er ekki skrifstofumanneskja. Ég vil frekar gera eitthvað með höndunum. Á Íslandi hefur mér orðið ljóst að ég vil frekar þrífa íbúð en sitja í átta tíma við skrifborð. Ég hef farið í aðrar áttir en ég átti nokkru sinni von á.“
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.