Skip to main content

ME áfram í Gettu betur en VA úr leik

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 10. jan 2025 11:15Uppfært 10. jan 2025 11:24

Þremenningarnir sem skipa Gettu betur lið Menntaskólans á Egilsstöðum (ME) gerðu góða ferð suður í höfuðborgina til að taka þátt í fyrstu umferð keppninnar þetta árið. ME hafði góðan sigur í gærkvöldi og er komið áfram í næstu umferð.

Andstæðingur ME í þessari fyrstu atrennu var lið Fjölbrautarskóla Norðurlands Vestra en útkoman nánast aldrei í vafa og vannst sannfærandi 24-9 sigur á endanum. Lið ME þetta árið skipa þau Embla Fönn Jónsdóttir, Steinar Aðalsteinsson og Sigvaldi Snær Gunnþórsson.

Hinn framhaldsskóli fjórðungsins, Verkmenntaskóli Austurlands, hafði að sama skapi ekki erindi sem erfiði gegn sínum fyrsta andstæðingi á miðvikudagskvöldið var. Þá mættu þau Ágústa Vala Viðarsdóttir, Jóhanna Dagrún Daðadóttir og Freyr Sveinsson Zoéga liði Verkmenntaskólans á Akureyri og urðu að láta í minni pokann.

Alls 25 skólar taka þátt í Gettu betur að þessu sinni sem mætast í alls 12 keppnum næstu vikur og mánuði.

Keppendur ME í Gettu betur stóðust fyrstu raun sína með prýði. Skjáskot RÚV